Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, af öllum kröfum Auðar Laxness, ekkju Halldórs Laxness en Auður taldi Hannes hafa brotið gegn höfundarrétti við ritun 1. bindis af þriggja binda ævisögu Halldórs. Auður krafðist þess að Hannes yrði dæmdur til refsingar og til að greiða samtals 5 milljónir króna í skaða- og miskabætur.
Kröfur Auðar byggðust m.a. á því, að bók Hannesar hafi að miklu leyti verið endursögn á endurminningabókum Halldórs. Þannig hafi Hannes hagnýtt sér höfundarréttarvarinn texta úr bókum og öðrum ritverkum Halldórs, fellt hann inn í bók sína og gert textann þannig að sínum eigin án þess að aðgreina hann sérstaklega eða geta heimilda með fullnægjandi hætti.
Hannes mótmælti því að hafa afritað verk eða texta Halldórs á þann veg að það brjóti gegn höfundarrétti. Textinn væri hvergi samhljóða texta Halldórs þótt þeir væru vissulega stundum líkir. Mótmælti Hannes því, að höfundarrétturinn tæki til staðreynda eða upplýsinga um æviferil Halldórs, sem birtar væru í bók Hannesar.
Allan V. Magnússon, héraðsdómari, segir í niðurstöðu sinni, að sú hagnýting verka Halldórs Laxness, sem Hannes Hólmsteinn hafi beitt, feli í sér notkun texta sem njóti höfundarréttar. Tilvísun til bóka Halldórs í eftirmála uppfylli ekki kröfur sem gera verði í tilvikum sem þessum, þ.e. að höfundur ævisögu felli texta úr verkum þess, sem ævisagan fjallar um, inn í verk sitt. Með þessu hafi Hannes farið út fyrir hæfileg mörk við meðferð texta Halldórs Laxness og þannig brotið gegn höfundarrétti á verkum Halldórs, sem Auður Laxness hefur á hendi.
Hins vegar segir dómarinn að Auður hafi ekki gert nægjanlega líklegt, að hún hafi beðið tjón af því broti á höfundarlögum, sem Hannes hafi framið og var Hannes því sýknaður af bótakröfum. Þá var Hannes sýknaður af refsikröfu Auðar vegna þess að sex mánaða frestur, sem gefinn er í lögum til að setja fram kröfu um opinbera rannsókn eða höfða einkamál til refsingar, var löngu liðinn þegar málið var höfðað.