Miryam Shomrat, sendiherra Ísraels á Íslandi með aðsetur í Noregi, er nú í sinni þriðju heimsókn hingað til lands. Shomrat hitti Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra í dag og kom Valgerður þá á framfæri mótmælum ríkisstjórnar Íslands vegna árásar Ísraelshers á íbúðahverfi í bænum Beit Hanoun á Gasavæðinu þar sem nítján óbreyttir Palestínumenn létu lífið. Shomrat sagði eftir fund sinn með Valgerði í dag að Ísraelar séu mjög slegnir vegna atburðanna í Beit Hanoun. Það hafi ekki verið ætlun Ísraela að skaða palestínska borgara.
„Við ráðumst aldrei vísvitandi á óbreytta borgara ólíkt herskáum Palestínumönnum," sagði Shomrat er blaðamaður mbl.is ræddi við hana í dag. „Þetta er mergurinn málsins og ég sætti mig ekki við að látið sé í veðri vaka Ísraelar ráðist vísvitandi á óbreytta borgara. Yfirvöld á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum eiga samkvæmt alþjóðalögum og Oslóarsamkomulaginu að sjá til þess að árásir séu ekki gerðar frá yfirráðasvæði þeirra á nágrannaríki. Fram til þessa hefur engin heimastjórn Palestínumanna reynt af alvöru að koma í veg fyrir slíkar árásir. Þann dag sem palestínsk yfirvöld stöðva árásir á Ísrael get ég staðhæft að Ísraelar muni ekki gera eina einustu árás á Palestínumenn."
Nánar verður rætt við Shomrat í Morgunblaðinu á morgun.