Bæjarstjóranum á Akureyri finnst eðlilegt, miðað við hvernig að Akureyrarflugvelli er búið, að forráðamenn Iceland Express hyggist hætta vetrarflugi frá Akureyri til útlanda. Hann vonast þó til þess að ekki verði mjög langt þar til úrbætur verða að veruleika. Flugmálastjóri segir að áætlaður kostnaður við lengingu flugbrautarinnar sé 500 milljónir króna.
Haft var eftir Birgi Jónssyni, framkvæmdastjóra Iceland Express, í Morgunblaðinu í gær að til þess að hægt sé að halda uppi millilandaflugi frá Akureyri að vetrarlagi þurfi að lengja flugbrautina, bæta aðflugsskilyrði og fleira, "en þeir hagsmunaaðilar sem hafa verið með mjög háværar kröfur um að vera með millilandaflug á Akureyri hafa ekkert gert", sagði hann.
Samkvæmt kostnaðaráætlun mun þessi framkvæmd kosta um 500 milljónir kr.
Hann segir sífellt unnið að endurbótum á flugvellinum skv. samgönguáætlun. "Við erum með ýmis verkefni á framkvæmdastigi; verið er að setja upp nýjan radíóvita á Oddeyri, unnið er að fjölgun og þéttingu aðflugsljósa og í gangi eru greiningarverkefni á aðflugsaðferðum, sem skila okkur miklum árangri. Þannig er ekki rétt að halda því fram að ekki sé unnið að þessum málum af fullri einurð. Hins vegar er það gömul saga og ný að framkvæmdir á flugvöllum eru mjög kostnaðarsamar og krefjast gjarnan mikils undirbúnings. Ekki er farið í slík verkefni nema búið sé að taka þau inn í áætlanir og þá sérstaklega samgönguáætlun."
Kristján segir að flugið hafi gengið þokkalega greiðlega þrátt fyrir allt. "Þessi atriði sem Birgir nefnir eru sjálfsögð; lenging flugbrautar, bæting aðflugsskilyrða og fleira." Varðandi tilfellið um helgina, þegar vél Iceland Express sem átti að lenda á Akureyri lenti í Keflavík og farþegar voru keyrðir norður, sagði Kristján að ekki þýddi fyrir notendur beina flugsins að vera með óþolinmæði og dónaskap í garð fyrirtækisins. "Fólk veit að fyrirtækið er að þjóna landshlutanum og mér finnst að menn verði að sýna svona brautryðjandastarfi ákveðna þolinmæði," sagði Kristján Þór.