Formaður nemendafélagsins á Bifröst lýsir óánægju með fund rektors

Viðskiptaháskólinn á Bifröst.
Viðskiptaháskólinn á Bifröst. mbl.is/Þorkell

Bryndís Ósk Jónsdóttir, formaður nemendafélags Háskólans á Bifröst, segir að atkvæðagreiðsla sem fram fór á fundi Runólfs Ágústssonar, rektors skólans, fyrr í dag hafi verið óviðunandi. Á fundinum gafst nemendum kostur á að lýsa trausti eða vantrausti á rektor.

„Atkvæðagreiðslan fór þannig fram að ómerktum seðlum var dreift af handahófi til algjörlega óskilgreinds fjölda fólks. Það eru bara algjörlega óviðunandi vinnubrögð og það er ekki hægt að byggja neitt á þessari atkvæðagreiðslu,“ segir Bryndís.

Þá segir Bryndís að aðeins brot þeirra nemenda og starfsmanna sem rétt höfðu á að kjósa hafi setið fundinn, en auk þess hafi hluti fundargesta gengið út þegar kosningin hófst.

Töluverðrar óánægju hefur gætt á meðal nemenda skólans með störf rektors, og hafa nemendur meðal annars lagt fram kærur til siðanefndar skólans. „Þessar kærur sem um ræðir voru sendar siðanefnd sem mun taka þær fyrir og stjórn skólafélagsins telur það vera hinn rétta farveg í málinu,“ segir Bryndís, en á fundinum í dag viðurkenndi Runólfur meðal annars að hafa átt í ástarsambandi við nemanda í skólanum. Hann sagðist þó ekki hafa gert neitt rangt.

Þá segir Bryndís óviðunandi að engum hafi verið gefinn kostur á að tjá sig á fundi rektors í dag. „Við teljum að svona einhliða yfirlýsingar þar sem engir aðrir fá að koma að málinu eða spyrja spurninga séu ekki vinnubrögð í takt við það sem kennt er í þessum skóla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert