Lenging flugbrautar á Akureyrarflugvelli rædd á Alþingi

Frá Akureyrarflugvelli
Frá Akureyrarflugvelli mbl.is/Kristján

Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti máls á því á Alþingi að fréttir um að Iceland Express boði að hætta flugi frá Akureyri til Kaupmannahafnar vegna slæmrar aðstöðu á flugvellinum á Akureyri. Kristján beindi þeirri spurningu til Sturlu Böðvarssonar, samgönguráðherra, hvort aðstaðan verði bætt á Akureyrarflugvelli. Sturla segir að ljóst sé að mikill áhugi sé fyrir því á Norðurlandi að halda úti millilandaflugi frá Akureyrarflugvelli. Sturla segir að nauðsynlegt sé að bæta aðstöðu á flugvellinum á Akureyri. Meðal annars með því að lengja flugbrautina á Akureyrarflugvelli.

Að sögn Sturlu er unnið að því að þétta aðflugsljós á vellinum, setja upp stefnuvita á Oddeyri og er stefnt að því að þeirri vinnu ljúki á fyrri hluta næsta árs eða þegar lokið er prófun á búnaðinum. Segir Sturla að kostnaður vegna þessa sé um 50 milljónir króna. Jafnframt sé verið að gera áhættumat á flugvellinum sem væntanlega liggur fyrir í desember.

Ekki sé gert ráð fyrir því í þeirri samgönguáætlun sem nú liggur fyrir að flugbrautin verði lengd á Akureyri. Kostnaður við lengingu sé um 500 milljónir króna. Hins vegar verði þetta skoðað við endurskoðun á samgönguáætlun. Eins kostar 250 milljónir króna að endurnýja aðflugsradar á Akureyrarflugvelli. Segir hann að Iceland Express hafi ekki haft samband við ráðuneytið um að félagið sé að hætta millilandaflugi um Akureyrarflugvöll vegna aðstæðna þar.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði það mikið áhyggjuefni að Iceland Express hafi ákveðið að hætta millilandaflugi frá Akureyri. Ljóst sé að það þurfi að bæta aðstöðu við Akureyrarflugvöll og það sé forgangsmál að flugbrautin verði lengd. Það sé eitt brýnasta hagsmunamál Norðlendinga í samgöngumálum. Því sé brýnt að flugbrautin verði lengd það eigi að vera forgangsmál í endurskoðun samgönguáætlunar.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði að millilandaflug frá Akureyri hafi sýnt það og sannað að það er markaður fyrir hendi. Það eina sem strandar á sé ófullnægjandi aðstæður á flugvellinum að vetrarlagi. Segir Steingrímur að óumflýjanlegt sé að lengja flugbrautina. Lagði hann áherslu á að það verði gert um leið og Vaðlaheiðagöng verða lögð og segist Steingrímur vonast til þess að inni í samgönguáætlun verði lenging flugbrautar og Vaðlaheiðagöng.

Halldór Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þakkaði Kristjáni Möller fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Leggur Halldór til að það verði forgangsmál að lengja flugbrautina á Akureyri. Spurði Halldór samgönguráðherra út í orð flugmálastjóra að ekki verði lagt í lengingu með litlum fyrirvara. Hvers vegna er þetta ekki forgangsframkvæmd, spurði Halldór.

Jón Kristjánsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist taka undir það að um brýnt mál sé að ræða, það er að lengja flugbrautina á Akureyri.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að til að efla Eyjafjarðarsvæðið sem raunverulegan búsetukost á við höfuðborgarsvæðið sé mikilvægt að opna möguleika á beinu millilandaflugi frá Akureyri. Það sé mikilvægt til að skapa jafnvægi á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins hvað varðar búsetuskilyrði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert