300 þúsund króna frítekjumark ellilífeyrisþega tekið upp um áramót

Ríkisstjórnin hefur ákveðið, að tillögu Árna Mathiesens, fjármálaráðherra, og Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, að leggja til að gildistöku 300 þúsund króna frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði flýtt um þrjú ár. Þetta þýðir að ákvæði í frumvarpi um almannatryggingar, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, og gert er ráð fyrir að tækju gildi á árinu 2009 og 2010 taka að fullu gildi um næstu áramót.

Í tilkynningu frá heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti segir, að ákvörðun um að flýta gildistökunni og stíga þetta skref að fullu um áramótin en ekki í tvennu lagi, endurspegli þann vilja ráðherranna og ríkisstjórnarinnar að koma til móts við eindregnar óskir talsmanna fulltrúa aldraðra og aldraðra sjálfra.

Með frítekjumarkinu er ellilífeyrisþegum gert kleift að stunda atvinnu og fá 300.000 krónur á ári í laun, án þess að þessi hluti teknanna skerði tekjutryggingu sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir. Segir ráðuneytið, að kjarabótin vegna afnáms þessa hluta tekjutenginga gagnist þeim mest í hópi ellilífeyrisþega sem hafa lægri og meðaltekjur.

Með frítekjumarkinu er í fyrsta lagi dregið úr beinum áhrifum tekna á bætur og í öðru lagi eru ellilífeyrisþegum sköpuð almenn betri skilyrði og hvatning til að vera lengur á vinnumarkaði. Segir ráðuneytið, að mikil atvinnuþátttaka eldri borgara sé eitt af sérkennum íslenska vinnumarkaðarins sem hafi mikil jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur eldri borgara borið saman við það sem annars staðar þekkist. Brýnt þyki að varðveita þessi sérkenni.

Þá segir ráðuneytið, að með því að draga úr tekjutengingum sé líka verið að skapa grundvöll fyrir þann hluta aldraðra sem kýs að vinna lengur en nú tíðkast og sé með því komið enn frekar til móts við kröfur aldraðra um möguleika á sveigjanlegum starfslokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert