Runólfur Ágústsson, rektor Háskólans á Bifröst hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu frá og með 1. desember. Í yfirlýsingu frá honum kemur fram að sá ófriður sem ríkt hefur í skólahaldi á Bifröst að undanförnu hefur truflað bæði nemendur og starfsfólk og að auki valdið skólanum sjálfum skaða. „Enda þótt spjótum sé beint að mér einum, og nánast eingöngu vegna persónulegra mála en ekki málefna skólans, bitnar þessi aðför einnig á fjölskyldu minni, nánum vinum og samstarfsmönnum.
Ég hef undanfarin sjö ár gefið þessum skóla allt mitt líf, allan minn tíma og alla mína orku. Einkalíf mitt get ég hins vegar ekki gefið.
Ég hef því tekið ákvörðun um að segja upp starfi mínu sem rektor skólans frá og með 1. desember næstkomandi. Þetta geri ég þrátt fyrir að njóta óskoraðs stuðnings háskólastjórnar til minna starfa, sem og háskólasamfélagsins á Bifröst.
Á fjölmennum fundi í gær tók ég þá djörfu ákvörðun að bera störf mín og hæfi undir atkvæði nemenda og starfsfólks þar sem hátt á þriðja hundrað manns tóku afstöðu. Mikill meirihluti þeirra lýsti yfir stuðningi við mig sem ég met mikils og er þakklátur fyrir. Átökum innan skólans þarf hins vegar að linna tafarlaust svo skólahald geti orðið með eðlilegum hætti.
Ég lít hreykinn um öxl til þeirrar miklu uppbyggingar sem átt hefur sér stað á Bifröst í rektorstíð minni. Ég óska starfsfólki og nemendum skólans velfarnaðar og læt í ljós þá von að Háskólinn á Bifröst eigi eftir að halda áfram að vaxa og dafna um langa framtíð," segir í yfirlýsingu Runólfs Ágústssonar.
Skólafélagið þakkar Runólfi fyrir vel unnin störf
Í yfirlýsingu frá Skólafélagi Háskólans á Bifröst kemur fram að Skólafélag Háskólans á Bifröst vill þakka Runólfi Ágústssyni störf hans í þágu samfélagsins á Bifröst.
„Runólfur hefur unnið óeigingjarnt og gott starf hér á Bifröst og verður hans verkum seint gleymt. Er ljóst að Runólfs verður minnst sem eins af frumkvöðlum í háskólastarfi landsins.
Er það von Skólafélagsins að friður og ró komist á skólastarf hér á Bifröst og lífið fari aftur í eðlilegar horfur hið fyrsta.
Runólfi eru enn og aftur þökkuð störf hans og þátttaka í uppbyggingu Bifrastar."