Norsk stjórnvöld telja að hernaðarlegt mikilvægi Norður-Atlantshafsins hafi vaxið á nýjan leik og vilja ræða við Ísland og önnur NATO-ríki um hina nýju stöðu. Þetta kemur meðal annars fram í fréttaskýringu í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, sem er fyrsta greinin í greinaflokki um utanríkis- og öryggismál Íslands, sem mun birtast á næstu vikum.
Ein ástæðan fyrir auknu hernaðarlegu mikilvægi norðurhafa er stóraukin olíu- og gasvinnsla í Barentshafinu á næstu árum. Seint á næsta ári mun framleiðsla á gasi hefjast á Mjallhvítar-svæðinu í Barentshafi. Á árinu 2008 munu risastór skip, sem flytja fljótandi jarðgas, sigla frá Barentshafinu og framhjá Íslandi á leið sinni til Bandaríkjanna. Norðmenn telja mikilvægt að gæta öryggis þessara skipaflutninga og telja lokun Keflavíkurstöðvarinnar óheppilega í því ljósi.