Ríkið taki þátt í lengdri viðveru fatlaðra grunnskólabarna í 5.-10. bekk

Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra.
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra.

Ríkisstjórnin samþykkti í dag að félagsmálaráðuneytið gangi til viðræðna við Samband íslenskra sveitarfélaga um útfærslu á greiðsluþátttöku ríkisins í lengdri viðveru fatlaðra grunnskólabarna í 5. til 10. bekk. Hún verði til bráðabirgða í tvö ár frá 1. janúar 2007. Ennfremur var samþykkt að félagsmálaráðherra fengi heimild til að undirrita samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga á þeim grundvelli.

Með því muni ötluð grunnskólabörn á aldrinum 10 til 16 ára fá aðstoð við heimanám og þroskandi dægradvöl eins og önnur börn. Er reiknað með að hlutur ríkissjóðs geti orðið 60 milljónir króna á ári í tvö ár.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra segir þetta jafnræðis- og réttlætismál og að með þessu fái fötluð grunnskólabörn sömu möguleika og önnur börn á lengdri viðveru í grunnskóla.

„Lagaskylda hvílir hvorki á ríkinu né sveitarfélaginu að bjóða þessa þjónustu,“ segir Magnús Stefánsson, „en nú liggur fyrir að báðir aðilar standi undir kostnaðinum og leysi úr þessu máli fyrir allt að 370 fötluð börn í grunnskóla.”

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að um alllangt skeið hafi verið unnið að framtíðarlausn varðandi það hver skuli greiða kostnað þeirra fötluðu grunnskólabarna, á aldrinum 10 til 16 ára, sem fá þjónustu eftir að skólastarfi lýkur. Það er kölluð lengd viðvera, þ.e. dægradvöl og aðstoð við heimanám lýkt og veitt er grunnskólabörnum eftir að skólastarfi lýkur og stendur fram til klukkan 17.

Varðandi yngri börnin, 6 til 9 ára, stendur þeim til boða að fá þessa þjónustu hjá sveitarfélögunum, hvort sem þau eru fötluð eða ekki. Sérstakur starfshópur um þetta hefur lagt til að gert verði sérstakt samkomulag milli félagsmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, um að ríkissjóður og sveitarfélög skipti kostnaði vegna lengri viðveru fatlaðra grunnskólabarna í 5. til 10. bekk. Jafnhliða verði lög um málefni fatlaðra endurskoðuð í því skyni að kveða skýrt á um hlutverk og ábyrgð ríkis og sveitarfélaga varðandi lengri viðveru fatlaðra grunnskólabarna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert