Stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að lögleiða 25 þúsund króna frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna lífeyrisþega, frá 1. janúar á næsta ári. Það sé þó ekki nóg og aðeins þriðjungur af því sem stjórnarandstaðan hafi lagt til á Alþingi. Áður hafi ríkisstjórnin kynnt áform um að slík breyting kæmi til framkvæmda í áföngum á árunum 2009 og 2010.
„Samkvæmt þingsályktunartillögu sem Frjálslyndi flokkurinn, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin grænt framboð stóðu sameiginlega að í upphafi þings er lagt til að frítekjumark vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þúsund krónur á mánuði eða 900 þúsund krónur á ári og komi strax til framkvæmda. Stjórnarandstöðuflokkarnir krefjast þess að ríkisstjórnin stígi nú þegar stærri skref til þess að bæta kjör lífeyrisþega í samræmi við þessar tillögur," segir í yfirlýsingu frá stjórnarandstöðunni.