92% erlendra ferðamanna telja vínverð hér hátt

Mikill meirihluti erlendra ferðamanna, sem sóttu Ísland heim í sumar, telur að verð á víni á íslenskum veitingastöðum sé mjög hátt. 22% álitu það fremur hátt, 7% hæfilegt en 1% taldi það lágt.

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar meðal erlendra ferðamanna sem sóttu Ísland heim sl. sumar á gæðum ferðaþjónustunnar. Niðurstöðurnar voru kynntar á nýafstaðinni ferðamálaráðstefnu 2006. Spurningalistar voru lagðir fyrir ferðamenn í Leifsstöð og á Seyðisfirði í sumar og haust. Flestir voru á þeirri skoðun að Ísland væri dýrt land þegar spurt var um verðlag í íslenskri ferðaþjónustu að teknu tilliti til gæða.

Helmingur aðspurðra í könnuninni taldi verð á mat á veitingahúsum mjög hátt, 39% álitu það fremur hátt, 10% hæfilegt en 1% áleit það lágt.

Þá töldu 78% verð á bílaleigubílum og hótelgistingu mjög eða fremur hátt, 70% voru sama sinnis varðandi gistiheimili og 62% varðandi skipulagða afþreyingu. 34% álitu verð á skipulagðri afþreyingu vera hæfilegt.

"Samkvæmt samanburði við kannanir RRF frá árunum 1996 og 1998 er verðlag á víni og mat á veitingastöðum hérlendis nú enn óhagstæðara ferðamönnum en það var fyrir 8-10 árum. Þessu er hins vegar öfugt farið með verðlag á bílaleigubílum sem talsvert færri telja nú vera hátt," segir í niðurstöðum könnunarinnar.

Könnunin leiddi í ljós að 36% erlendra ferðamanna töldu gæði íslenskrar ferðaþjónustu almennt meiri en þeir bjuggust við, 58% töldu þau svipuð en 6% töldu gæðin minni en þeir höfðu vænst.

Alls svöruðu 1.712 ferðamenn könnuninni eða 82% þeirra sem fengu hana í hendur.

Í hnotskurn
» Helmingur aðspurðra taldi verð á mat á veitingahúsum mjög hátt, 39% álitu það fremur hátt, 10% hæfilegt en 1% áleit það lágt.
» 78% aðspurðra töldu verð á bílaleigubílum og hótelgistingu mjög eða fremur hátt, 70% voru sama sinnis varðandi gistiheimili og 62% varðandi skipulagða afþreyingu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert