Kynbundinn launamunur er að meðaltali um 23,2% samkvæmt kjarakönnun Starfsgreinasambandsins (SGS), sem unnin var af Capacent Gallup, og var þar tekið tillit til aldurs, vinnutíma, starfsstéttar, menntunar, landssvæðis og hvort fólk væri í vaktavinnu eða dagvinnu.
Könnunin sýnir, að mati SGS, að karlar eru með 16,2 - 30,2% hærri heildarlaun en konur. Er þar miðað við fólk á svipuðum aldri, í sömu starfsstétt, með sambærilegan vinnutíma, á sama landsvæði og með sama vinnufyrirkomulag. Fólk í umönnunarstörfum, veitingum og ræstingum var sett í einn hóp, verkamenn í inni- og útistörfum ásamt tækjamönnum í annan hóp og þjónustu- og skrifstofustörf í þann þriðja. Laun í Reykjavík og nágrenni voru borin saman við laun viðmiðunarhópa á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi.
Samkvæmt niðurstöðum er vinnutími langur um allt land og hátt hlutfall yfirvinnu í heildarlaunum. Á vef SGS segir að það hljóti að vekja spurningar um endurskoðun dagvinnutaxta og hvort ekki sé tímabært að ræða á ný þá kröfu verkalýðshreyfingarinnar um 8 tíma vinnudag á viðunandi launum. Þá hefði fólk 8 klukkustundir aflögu fyrir fjölskyldu og vini og 8 til hvíldar. Skoða má könnunina með því að smella á tengil með fréttinni.