Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu margir á Alþingi í dag hvernig til hefði tekist í einkavæðingu Símans. Var fullyrt, að landsbyggðin hefði setið á hakanum í uppbyggingu á fjarskiptaþjónustu og íbúar þar sætu ekki við sama borð og íbúar í þéttbýli varðandi aðgengi að þjónustunni, verð og gæði.
Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, hóf umræðuna og sagði m.a. að jafnt aðgengi að fjarskiptaþjónustu, verð á henni og og gæði, væri einn mikilvægasti þáttur í því að jafna búsetuskilyrði í landinu. Þessu væri hins vegar ekki að heilsa, og svo virtist vera að bilið væri að breikka milli íbúa eftir því hvar þeir byggju á landinu. Vísaði Jón m.a. til þess, að á sínum tíma hefði styrk Landssímans verið beitt í þeim tilgangi að jafna þennan mun.
Fleiri þingmenn stjórnarandstöðu tóku í sama streng. Guðjón A. Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að ómögulegt væri annað en að finna að því hvernig til hefði tekist. Einkavæðingarferlið í fjarskiptaþjónustu hefði ekki tekist og menn sætu uppi með skömmina.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sagði í umræðunni, að halda mætti að þingmenn hefðu ekki komið í kjördæmi sín lengi og sagði þá vera afskaplega neikvæða í málflutningi sínum. Spurði hann hvort verið gæti, að neikvæður málflutningur um þjónustu við landsbyggðina og söngur um að allt sé að fara í kaldakol birtist í prófkjörsárangri þingmanna.
Sturla sagði að uppbyggingin á sviði fjarskipta hefði verið mikil og það væri í samræmi við kröfur, sem Íslendingar gerðu.