Leitað að jarðhita í Fljótshlíð

Orkuveita Reykjavíkur og Rangárþing eystra hafa gert með sér samkomulag um jarðhitaleit í Fljótshlíð, en þar eru flestir bæir nú hitaðir með rafmagni. Forsenda leitarinnar er að samkomulag náist við landeigendur en sveitarfélagið mun þegar hefjast handa við að afla heimildar þeirra.

Í tilkynningu segir, að veruleg uppbygging hafi verið í sumarhúsabyggðum og í ferðaþjónustu í Fljótshlíð á undanförnum árum. Hugmyndin sé að bora tiltölulega grunnar rannsóknarholur víðsvegar um Fljótshlíðina til að leita heitra vatnsæða. Finnist heitt vatn í nýtanlegu mæli verði það notað til að mæta ört vaxandi eftirspurn í Fljótshlíðinni og til að efla rekstraröryggi hitaveitunnar á Hvolsvelli.

Gengið hefur verið til samstarfs við Jarðfræðistofuna Stapa, sem stýra mun jarðhitaleitinni, að fengnum tilskyldum leyfum. Kynningarfundur um verkefnið verður haldinn að Goðalandi í Fljótshlíð mánudaginn 27. nóvember kl. 20:30.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert