Sala á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun samþykkt í borgarstjórn

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. Morgunblaðið/ Sverrir

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn samþykkti í kvöld sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Tillaga um það var samþykkt eftir langa umræðu en borgarfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Frjálslyndra greiddu atkvæði gegn sölunni.

Vinstri grænir lögðu fram bókun þar sem sölunni er mótmælt harðlega. ,,Með samþykkt borgarstjórnar í dag er stigið skrefi nær þeim markmiðum stjórnvalda, með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi, að einkavæða Landsvirkjun. Sameiginlegt eignarhald ríkis og tveggja sveitarfélaga í Landsvirkjun hefur einmitt tryggt að þessi mikilvæga starfsemi væri í höndum samfélagsins. Nú skal hins vegar haldið inn á braut einkavæðingar, í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna sem er að mola niður samfélagsþjónustuna og koma henni í síauknu mæli í hendur einkaaðilum," segir m.a. í bókuninni.

Vinstri grænir segja að í júlí hafi borgarstjóri heitið því í borgarráði að gera grein fyrir framvindu málsins en hafi síðan ekki vikið að því einu orði fyrr en samningur hafi verið undirritaður og þar með búið að afsala Reykvíkingum dýrmætri sameign. ,,Hér gerir meirihlutinn sig sekan um yfirgang og ólýðræðisleg vinnubrögð sem því miður eru ekki einsdæmi á stuttum valdatíma nýrrar borgarstjórnar," segja vinstri grænir.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar segja að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar. Í raun ríki nú óvissa um það hvort samningurinn sé tækur þar sem það stangist á við gildandi lög að lífeyrissjóðurinn taki við skuldabréfum sem samningurinn geri ráð fyrir.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram samljóða tillögu með vísan til óásættanlegs verðs, greiðsluforms og sýndarfyrirvara um einkavæðingu Landsvirkjunar. Þessi tillaga var felld en samningurinn samþykktur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert