"ÞJÓÐARSÁTTIN sem við þurfum snýst ekki um hvort nýta skuli orkulindirnar heldur hvernig," sagði Víglundur Þorsteinsson, stjórnarformaður BM-Vallár, á fundi Samtaka iðnaðarins í gær um skýrslu auðlindanefndar iðnaðarráðherra. Hann kynnti á fundinum þá hugmynd að allar sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og Landsvirkjun yrðu lagðar til félags sem gæti borið nafnið Íslenski auðlindasjóðurinn ohf. og yrðu allir íslenskir ríkisborgarar hluthafar í sjóðnum.
"[Sjóðurinn] myndi ljúka þeim virkjunum sem nú eru á borðum Landsvirkjunar í Þjórsá en að öðru leyti myndi hann hafa það hlutverk að leigja út virkjunarrétt til annarra og stuðla að heilbrigðri samkeppni á orkumarkaði. Lögbundið yrði að sjóðurinn greiddi 30-35% af hagnaði sínum eftir skatt," sagði Víglundur og benti á að í Alaska starfaði sambærilegur sjóður sem greiddi út arð til íbúa árlega og sagði Víglundur arðinn hafa numið 1.106 dollurum í ár, jafngildi um 78 þúsunda íslenskra króna. "Meginávinningurinn ef vel tekst til yrði að færa þessi mál nær þjóðinni sjálfri og heim í hérað um leið og hún yrði beint tengd auðlindarentunni í framtíðinni í gegnum árlegan arð," sagði Víglundur.
Hann sagði tímabært að hugsa umhverfis- og virkjanamál upp á nýtt og ekki væri hægt að líta framhjá væntanlegri fólksfjölgun. Með 1% fjölgun á ári verði Íslendingar um 770 þúsund í lok aldarinnar og samhliða slíkri fólksfjölgun myndi orkunotkun aukast verulega. Kvaðst hann þess fullviss að losun gróðurhúsalofttegunda í framtíðinni yrði skattlögð með grænum sköttum, sem mætti svo hagnýta til mótvægisaðgerða.