Segir hugsanlegt að opna tvöfaldan Suðurlandsveg í lok árs 2009

Suðurlandsvegur við Litlu kaffistofuna.
Suðurlandsvegur við Litlu kaffistofuna.

Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvá, segir að félagið hafi áhuga á því að taka að sér fjármögnun á tvöföldun Suðurlandsvegar að Þjórsárbrú. Þetta kom fram á morgunfundi Samtaka verslunar og þjónustu um þjóðarátak um betri vegi í morgun. Þór segir að ef fyrirtækið tekur verkefnið að sér sé hugsanlegt að opna tvöfaldan Suðurlandsveg í lok árs 2009. Hann segir slíka framkvæmd geta orðið ábatasama fyrir fyrirtækið, en einnig fyrir þjóðfélagið í heild.

Þór segir mikla þekkingu innan tryggingafélagsins á þessum málum, og að forvarnir séu lykilatriði til að draga úr slysum. Hann segir ábatasamt fyrir fyrirtækið og viðskiptavini þess að taka að sér framkvæmdina, það geti sparað um 70 til 100 milljónir fyrir Sjóva á hverju ári. Þá segir Þór það einnig ábatasamt fyrir þjóðfélagið því flýting á tvöföldun Suðurlandsvegar fækki tjónum. Alvarlegustu tjónin séu þar sem bílar skella saman og því sé mikilvægt að aðskilja gagnstæðar brautir.

Í máli Þórs kom fram að fagna beri aðkomu einkaaðila að uppbyggingu umferðarmannvirkja. Hann segir reynslu af Hvalfjarðargöngum góða og að miðað við þá reynslu sé mögulegt að opna tvöfaldan Suðurlandsveg í lok árs 2009. Þá velti hann fyrir sér fleiri verkefnum, til dæmis Sundabraut, Vesturlandsvegi, styttingu leiðar til Akureyrar um 40 til 60 kílómetra, auk undirgangna á höfuðborgarsvæðinu, sem einkaaðilar geti fjármagnað.

Ef af verður, verður um langtímasamning milli ríkis og einkaaðila að ræða þar sem ríkið greiðir svokallað skuggagjald til einkaaðila, en þar yrði greitt fyrir hvern bíl sem keyrir um veginn. Að samningstíma loknum myndi ríkið svo eignast veginn. Þó kom fram í máli Þórs að í einstaka tilfellum kæmu vegagjöld til greina.

Á fundinum voru tekin dæmi erlendis frá, til dæmis frá ýmsum Evrópulöndum þar sem dæmi eru um að tryggingafyrirtæki eigi hlut í umferðarmannvirkjum.

Þór Sigfússon.
Þór Sigfússon.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert