Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að útgjöld ríkisins á næsta ári hækki um nærri 9,6 milljarða króna miðað við upphaflega fjárlagafrumvarpið. Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur hækki um rúma 3 milljarða frá frumvarpinu. Verður tekjujöfnuður samkvæmt þessu um 9 milljarðar króna, eða 6,5 milljörðum minni en fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir.
Fjárframlög til ráðuneyta hækka mismikið, samkvæmt tillögum meirihluta fjárlaganefndar. Þannig hækka framlög til menntamálaráðuneytisins um 1726,7 milljónir króna, þar af 308 milljónir til Háskóla Íslands og 70 milljónir til Háskólans á Akureyri. Óskipt framlag til framhaldsskóla hækkar um 250 milljónir, framlag til Sinfóníuhljómsveitarinnar um 141 milljón, til Húsfriðunarsjóðs um 135 milljónir og til kvikmyndasjóða um 123 milljónir svo nokkuð sé nefnt.
Framlög til heilbrigðisráðuneytis hækka um 1541 milljónir og er stærsta framlagið, 1 milljarður, til Landspítala-háskólasjúkrahúss til að styrkja rekstargrunn sjúkrahússins.
Þá er lagt til, í samræmi við tillögur nefndar sem fjallað hefur um fjármál stjórnmálaflokka, að flokkarnir fái samtals 130 milljónir til viðbótar á fjárlögum en nú leggur ríkissjóður til 295 milljónir til stjórnmálaflokkanna.
Tillögur meirihluta fjárlaganefndar