Úthlutun á lóðum í Kópavogi dæmd ólögmæt

Héraðsdómur Reykjaness hefur komist að þeirri niðurstöðu, að úthlutun bæjarstjórnar Kópavogs á byggingarrétti á tveimur lóðum við Kópavogsbakka í desember á síðasta ári hafi verið ólögmæt. Dómurinn vísaði hins vegar frá kröfu umsækjanda um lóðirnar um að skaðabótaskylda bæjarins yrði viðurkennd.

Kópavogsbær auglýsti í nóvember á síðasta ári, að úthlutað yrði byggingarrétti á lóðum á svokölluðu Kópavogstúni. Hjón, sem sóttu um byggingarrétt á einni lóð og til vara á annarri lóð, voru ekki meðal þeirra sem fengu lóðaúthlutun samkvæmt tillögum bæjarráðs, en þær tillögur voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar 19. desember með 8 atkvæðum gegn 1. Hjónin höfðuðu mál gegn bænum í kjölfarið.

Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu, að ákvörðun bæjarráðs og bæjarstjórnar um úthlutun hafi ekki verið byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Dómurinn segir þó ekki unnt að slá því föstu, að umræddir umsækjendur hafi átt að ganga framar lóðarhöfum en samkvæmt úthlutunarreglum hafi skilyrðislaust átt að draga um lóðirnar. Segir dómurinn, að Kópavogsbær hafi ekki fært fram fullnægjandi rökstuðning fyrir ákvörðuninni eða annað liggi fyrir í gögnum málsins, sem bendi til þess að lóðarhafar hafi staðið stefnendum framar hvað skilyrði til úthlutunar varðaði. Því hafi ákvörðunin verið ólögmæt og ekki í samræmi við góða og gagnsæja stjórnsýsluhætti.

Dómurinn vísaði hins vegar frá kröfu stefnenda um að fá viðurkennda skaðabótaskyldu bæjarins. Segir í niðurstöðu dómsins, að þótt ekki sé unnt að útiloka að stefnendur hafi beðið tjón af hinni ólögmætu háttsemi bæjarins þyki þeir ekki hafa sýnt fram á það að svo stöddu að þau hafi orðið fyrir tjóni og í hverju tjón þeirra sé fólgið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert