Ákvarðanir stjórnvalda um Írak byggðust á röngum upplýsingum og voru því rangar eða mistök

Jón Sigurðsson flytur ræðu sína á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í dag.
Jón Sigurðsson flytur ræðu sína á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á miðstjórnarfundi flokksins í dag, að ákvarðanir íslenskra stjórnvalda á sínum tíma um málefni Íraks hefðu byggst á röngum upplýsingum og því verið rangar eða mistök.

„Mikið hefur verið rætt um ákvarðanir íslenskra stjórnvalda á sínum tíma um málefni Íraks. Þær byggðust á röngum upplýsingum. Forsendurnar voru rangar og ákvarðanaferlinu ábótavant. Þessar ákvarðanir voru því rangar eða mistök. Svonefndur listi um „staðfastar þjóðir" var einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar og hluti af þessari hörmulegu atburðarás. Ákvarðanir um öryggismál og alþjóðaverkefni ber ævinlega að taka eftir vandaðasta undirbúning og eftir trúnaðarsamráð við lögmætar stofnanir eins og utanríkismálanefnd alþingis. Við skulum tala hreinskilnislega um þetta, hvort sem einhver okkar tengdust þessu sjálf eða komu þar hvergi nærri," sagði Jón í ræðu sinni og uppskar lófaklapp viðstaddra.

Fjölskyldumál verða efst á baugi í kosningunum
Jón fjallaði í ræðunni einkum um stöðu Framsóknarflokksins, störf hans í ríkisstjórn undanfarin kjörtímabil, sérstöðu hans í íslenskum stjórnmálum og stefnumál hans í væntanlegri kosningabaráttu. Sagi Jón m.a. að í kosningabaráttunni verði fjölskyldumálin efst á baugi og málefni barna og barnafjölskyldna og málefni aldraðra og öryrkja muni ráða úrslitum.

„Í málefnum aldraðra og lífeyrisþega skipta ýmsir þættir skattamála miklu. Íslendingar eru auðug þjóð, og við viljum skila arðinum af hagvextinum áfram til allra landsmanna, einkum til þeirra sem mest eru þurfandi. Við viljum ná áföngum varðandi ungbörn og fæðingarorlof. Við viljum efla heimaþjónustu og hlúa að langveikum og fötluðum. Um leið og jafnaðaráhrifum er haldið viljum við hækka skattleysismörk, minnka skerðingar í bótakerfum og semja við lífeyrissjóðina um sambærilega þróun. Og við viljum ná áfanga í að einfalda velferðar- og bótakerfin og gera þau betur skiljanleg fólkinu sem nýtur þeirra," sagði hann.

Félagshyggja Framsóknar ekki af sósíalískum toga
Jón sagði að félagshyggja framsóknarmanna væri ekki af sósíalískum toga heldur hluti af sögu, baráttu og endurreisn íslensku þjóðarinnar, með öðru orði þjóðhyggja. „Þjóðin hefur svo sannarlega notið þess sem markaðslögmálin hafa kallað fram, en framsóknarmenn telja að markaðslögmálin eigi að lúta siðferðilegum, menningarlegum og mannúðlegum skilyrðum, enda setjum við manngildi ofar auðgildi," sagði Jón og bætti við, að

Þá sagði hann að framsóknarmenn bentu á mikinn árangur af störfum stjórnvalda. „Við höfum hreinar línur. Við bendum á verk okkar. Við bendum á gróandi þjóðlíf og alhliða framfarasókn í landinu. Þetta leggjum við fram. Hvað hafa andstæðingarnir á móti? Er ekki kominn tími til að þeir sýni á spilin sín? Að undanförnu höfum við náð miklum árangri við að draga úr þenslu og ójafnvægi. Síðastliðið vor var verðbólguhraðinn um 15% miðað við heilt ár, en hann er nú kominn niður undir 3%. Þetta er mikilvægur árangur sem við framsóknarmenn eigum þátt í.

Er það nú sennilegt að almenningur vilji í kosningum taka þá áhættu að hverfa frá festu, stöðugleika og alhliða umbótastefnu? Er það líklegt að fólk vilji hætta þessu fyrir óvissan feng þegar til kastanna kemur?

Andstæðingar okkar hafa sótt hart að okkur og reynt að leggja störf okkar út á versta veg með útúrsnúningum. Það er þeirra leikur. Þeir liggja í samsæriskenningum og hafa verið að burðast við að mynda einhvers konar hræðslubandalag í örvæntingu sinni. Samfylkingin flakkar á milli póla en Vinstrigræningjar berjast gegn framfaramálum og flestum breytingum yfirleitt. Stefna Vinstri grænna er hömlulaust afturhald en vingulsháttur einkennir Samfylkinguna," sagði Jón.

Stefnumunur milli stjórnarflokkanna
Jón sagði að stefnumunur og ágreiningur væri milli stjórnarflokkanna í mörgum málum enda ólíkir flokkar, sem hefðu ólíkar áherslur í velferðarmálum, byggðamálum og málum, sem snerti tekjuskiptingu og skattkerfi. „Okkur greinir á um það hversu langt skuli ganga í einkavæðingu, og við deilum um samkeppni, óhefta frjálshyggju eða þjóðleg samvinnuviðhorf.

Það er á hinn bóginn ekki síður verulegur og djúpstæður ágreiningur og stefnumunur milli framsóknarmanna og stjórnarandstöðunnar. Það eru andstæður milli þjóðlegrar félagshyggju okkar og sósíalisma í mismunandi afbrigðum hans. Þetta er augljóst í grundvallarþáttum atvinnumála, landbúnaðar-, byggða- og fiskveiðimálum og í viðskiptamálum. Þetta blasir við þegar litið er til ábyrgrar og varkárrar umhverfisstefnu okkar um vernd og nýtingu auðlindanna eða upphlaupa og öfgahugmynda stjórnarandstæðinga," sagði Jón Sigurðsson m.a. í ræðu sinni.

Ræða Jóns Sigurðssonar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert