Síðastliðin Laugardag stóðu Torfusamtökin fyrir nýliðagleði í Iðnó undir yfirskriftinni 101 brennur. Fullt var út úr dyrum og hvert sæti skipað. Þórunn Valdimarsdóttir, Kolfinna Baldvinsdóttir, Pétur Ármann, Sverrir Tómasson og Hjörleifur Stefánsson fluttu ýmis erindi um persónuleg, söguleg, fróðleg og fagleg sjónarmið um ástand mála.
Andrea Jónsdóttir þeytti skífum af miklum móð og hinir stórefnilegu Sexy Djass og Haukur Björgvinsson spiluðu af fingrum fram, eins og segir í tilkynningu frá samtökunum.
Þar segir einnig, að þörf sé á nýjum áherslum í gamla bænum þar sem söguleg hús fái að halda rótum sínum og verndun og uppbygging fari raunverulega saman.