Heimild veitt til að hlera síma Hannibals Valdimarssonar árið 1961

Hannibal Valdimarsson í ræðustóli árið 1972.
Hannibal Valdimarsson í ræðustóli árið 1972. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Sakadómur Reykjavíkur veitti árið 1961 dómsmálaráðuneytinu heimild til að hlera nokkur símanúmer, þar á meðal heima- og vinnusíma Hannibals Valdimarssonar, þáverandi alþingismanns og forseta Alþýðusambands Íslands. Þá var eitt og hálft ár liðið frá því að hann lét af störfum sem ráðherra.

Í skjölum, sem Ólafur Hannibalsson hefur fengið í hendur hjá Þjóðskjalasafni Íslands, er bréf sem Baldur Möller, þáverandi ráðuneytisstjóri, undirritar fyrir hönd dómsmálaráðherra 26. febrúar 1961, þar sem segir að óttast megi að tilraunir verði gerðar til að trufla starfsfrið Alþingi á næstu dögum en þar verði til umræðu málefni, sem valdið hafi miklum deilum á þinginu og einnig valdið hótunum um ofbeldisaðgerðir, sem öryggi ríkisins gæti stafað hætta af. Vilji ráðuneytið benda á hvort ekki þætti tiltækilegt að láta hlusta á samtöl í tilteknum símanúmerum í því skyni að afla upplýsinga um þau efni.

Búið er að sverta yfir umrædd símanúmer í skjalinu sem Ólafur fékk í hendur utan heimilis- og skrifstofunúmer Hannibals. Ólafur fékk einnig afrit af úrskurði sakadóms þar sem fallist er á beiðni ráðuneytisins og segir þar að rétt þyki að úrskurða að hlusta skuli fyrst um sinn á símtöl, sem fram fari í umræddum símum, til öflunar upplýsinga um þau efni, sem komi fram í bréfi ráðuneytisins. Í afritinu af úrskurðinum hefur einnig verið svert yfir önnur símanúmer en númer Hannibals en númerin munu hafa verið 13 eða 14. Í fréttum Ríkisútvarpsins í dag kom fram, að þrír aðrir alþingismenn hafi átt í hlut.

Ólafur Hannibalsson sagði í viðtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2 í dag, að á þessum tíma hafi verið í gangi heitar umræður á þingi varðandi lausn á 12 mílna landhelgisdeilunni við Breta og mikill hiti í mönnum. Ólafur sagðist hins vegar telja, að þessi dóms- og lögregluaðgerð hafi verið afar furðuleg. Hann segist ekki geta ímyndað sér hvaða ógn ætti að hafa stafað af föður sínum á þessum tíma. Menn hafi mögulega verið hræddir um það að verkalýðshreyfingin gæti gripið til einhverra aðgerða.

Ólafur telur að umrædd gögn séu opinber og að þau eigi að vera aðgengileg öllum. Það sé nauðsynlegt fyrir öryggi borgaranna í landinu gagnvart ásælni ríkisvaldsins.

Ólafur sagðist ætla að krefjast þess að hulunni verði svipt af þessum númerum sem búið er að sverta og hann hyggst ganga alla leið í þeim efnum, þ.e. til hæstaréttar og út til Evrópu ef svo beri undir. Hann segist þó ætla að byrja á því að ræða við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, og krefjast þess að jafnræði verði sýnt öllum Íslendingum, þ.e. aðrir fái sama aðgang að umræddum skjölum og Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, hefur fengið. Ólafur segist hinsvegar ekki eiga von á öðru en neitun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka