Frumvarp um lækkun virðisaukaskatts á matvörum lagt fram

Virðisaukaskattur af mat og veitingaþjónustu lækkar 1. mars samkvæmt frumvarpi …
Virðisaukaskattur af mat og veitingaþjónustu lækkar 1. mars samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra. mbl.is/Jim Smart

Stjórnarfrumvarpi um lækkun virðisaukaskatts á matvörum og veitingaþjónustu var dreift á Alþingi í dag og verður mælt fyrir því á morgun. Samkvæmt því falla niður vörugjöld af matvælum, öðrum en sykri og sætindum frá og með 1. mars á næsta ári. Þá fer lægra skattþrep í virðisaukaskatti úr 14% niður í 7% og verður öll matvara og önnur vara til manneldis verði í lægra skattþrepinu.

Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir, að virðisaukaskattur af annarri þjónustu og vörum sem nú eru í 14% þrepi lækkar í 7%, ásamt því að virðisaukaskattur af veitingaþjónustu, geisladiskum, hljómplötum og segulböndum og öðrum sambærilegum miðlum lækkar úr 24,5% í 7%.

Þá er lögð til hækkun á áfengisgjaldi til að vega upp tekjumissi af lækkun virðisaukaskatts á áfengi úr 24,5% í 7%. Hækkun áfengisgjaldsins er 58% og miðar að því að tekjur ríkissjóðs af áfengi verði sem næst óbreyttar.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er áætlað að á árinu 2007 lækki tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum um 465 milljónir króna og tekjur af virðisaukaskatti um 12.000 milljónir. Á móti kemur hækkun áfengisgjalds um 3700 milljónir. Heildarlækkun ríkissjóðstekna á árinu 2007 er þannig áætluð 8765 milljónir króna og á heilsársgrundvelli nemur tekjulækkunin rúmlega 10.500 milljónir.

Niðurfelling vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts leiðir og til lækkunar á verðlagsspá, þannig að nú er reiknað með 3% almennri hækkun verðlags í stað 4,5% eins og reiknað var með í fjárlagafrumvarpinu. Þessi lækkun á verðlagsspá er talin hafa í för með sér 1000 m.kr. lækkun á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs.

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert