Húsfyllir á fundi um landbúnaðarmál

Valdimar Einarsson, ráðgjafi á Nýja-Sjálandi, varar við afleiðingum þess að afnema styrkjakerfi íslensks landbúnaðar og að fella niður innflutningshömlur á erlendum landbúnaðarafurðum. Hann telur að Íslendingar geti mikið lært af reynslu Nýsjálendinga þegar kemur að styrkjum til landbúnaðar. Þetta kom m.a. fram í erindi hans á fundi á vegum Bændasamtaka Íslands á Hótel Sögu í morgun. Húsfyllir var á fundinum sem haldinn var undir yfirskriftinni „Á að vera landbúnaður á Íslandi?”

Í erindi Valdimars kom einnig fram að ítrekaður samanburður á landbúnaði á Íslandi og Nýja-Sjálandi væri óraunhæfur með öllu. Allar aðstæður þar væru einstaklega hagstæðar og að Nýsjálendingar framleiddu þriðjung allrar mjólkur á heimsmarkaði. Eðlilegra væri fyrir Íslendinga að miða samanburð í landbúnaði við t.d. Dani, að því er segir í tilkynningu frá Bændasamtökum Íslands.

„Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur, var harðorður er hann beindi spjótum sínum m.a. að forystu ASÍ og þingmönnum. Hann sagði miðstjórn ASÍ skipaða fulltrúum af höfuðborgarsvæðinu að þremur fjórðu hlutum. Hann sagði í erindi sínu að svo virtist sem þessir aðilar gerðu sér ekki að fullu ljóst að íslenskur landbúnaður snerist ekki aðeins um bændur. Það væri alvarlegur misskilningur. Landbúnaður væri bakhjarl margra þéttbýlisstaða á landsbyggðinni. Það virtist ekki ljóst í huga margra þingmanna, sem gæfu sig út fyrir að berjast fyrir eflingu dreifðari byggða.

Aðalsteinn gerði að sérstöku umtalsefni áhyggjur sínar af því að fyrirhuguð lækkun matvælaverðs skilaði sér ekki í vasa neytenda. Hann taldi að umræðan um hátt matarverð hefði meira og minna lognast út af eftir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til lækkunar á matvælaverði. Hann skoraði á neytendur og samtök þeirra sem og aðra hagsmunaaðila að fylgjast grannt með því að verslanir hækkuðu ekki vöruverð rétt áður en fyrirhuguð breyting ætti að taka gildi," samkvæmt tilkynningu.

Hreinleiki, hollusta, hefðir og hæfni voru inntaksorð erindis Önnu Sigríðar Ólafsdóttir, lektors í matvæla- og næringarfræði við KHÍ. Anna Sigríður vísaði í rannsóknir sem sýndu fram á að íslenskar landbúnaðarafurðir væru einstakar þegar kæmi að gæðum og hollustu.

Hún vitnaði ennfremur til rannsókna sem sýndu að í vaxandi mæli legðu neytendur meira upp úr gæðum og hollustu matvæla en lágu verði þeirra. Þá undirstrikaði Anna Sigríður mikilvægi íslensks landbúnaðar út frá hnattrænu sjónarhorni og lagði áherslu á mikilvægi innlendrar framleiðslu á tímum vaxandi hættu á mengun og farsóttum.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, sagði í setningarræðu sinni á fundinum að til lítils væri barist ef lækkun á virðisaukaskatti skilaði sér ekki alla leið til neytenda. Hann vísaði til reynslu finnskra bænda eftirinngöngu í Evrópusambandið. Verð á afurðum þeirra hefði lækkað um 50% en ekki nema 10-11% til neytenda, samkvæmt fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert