Óska eftir viðræðum við fjárlaganefnd vegna SHA

Bæjarstjórn Akraness samþykkti samhljóða í gær að fela forseta bæjarstjórnar að hafa forgöngu um að óska eftir fundi ásamt yfirmönnum Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar (SHA) á Akranesi með formanni og varaformanni fjárlaganefndar Alþingis á næstu dögum. Á fundinum verði farið fram á að endurskoðuð sú ákvörðun fjárlaganefndar að veita ekkert af fjáraukalögum til SHA.

Á fréttavefnum Skessuhorn kemur fram að það voru bæjarfulltrúar minnihlutans þau Rún Halldórsdóttir, Sveinn Kristinsson, Guðmundur Páll Jónsson og Hrönn Ríkharðsdóttir sem lögðu tillöguna fram og var hún samþykkt með níu samhljóða atkvæðum.

Eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns var halli á rekstri SHA á síðasta ári og fyrirsjáanlegur er halli á rekstrinum á þessu ári. Stjórnendur stofnunarinnar undirbúa nú aðgerðir til þess að bregðast við hallarekstrinum þar sem þeir segja að óskir um aukin fjárframlög hafi engar undirtektir hlotið. Í fréttum Skessuhorns í síðustu viku sögðu Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins og Gísli S. Einarsson bæjarstjóri á Akranesi að verið væri að refsa vel rekinni stofnun með því að veita ekki frekari fjármunum til SHA, samkvæmt því sem segir á vef Skessuhorns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert