Ekið var á mann á reiðhjóli rétt fyrir klukkan átta í morgun á Flatahrauni við Iðnskólann í Hafnarfirði. Að sögn lögreglu er maðurinn talinn hafa slasast nokkuð. Orsök slyssins eru óljós en reiðhjólamaðurinn var að fara yfir götuna þegar bifreiðin rakst á hann er hún beygði af Kjóahrauni og inn á Flatahraun.
Um hálfníu í morgun hafnaði bifreið ofan í skurði á Álftanesvegi við Reykjanesbraut. Að sögn lögreglu missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún fór út af aðalveginum og hafnaði á hvolfi ofan í skurði, en vegaframkvæmdir hafa staðið þarna yfir að undanförnu. Ökumaðurinn slapp þó án meiðsla. Ekki liggur fyrir hvað varð þess valdandi að ökumaðurinn missti stjórn á ökutækinu.