Aurskriða féll milli húsa í Reyðarfirði

Frá Reyðarfirði í morgun
Frá Reyðarfirði í morgun mbl.is/Steinunn

Aurskriða féll á milli húsa inni í bænum á Reyðarfirði um klukkan átta í morgun en úrhellisrigning hefur verið á þessum slóðum frá því í gærmorgun. Engan sakaði en samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu var óttast að vatn færi að flæða inn í nálæg hús og voru björgunarsveitarmenn á Reyðarfirði kallaðir út til að veita vatni framhjá húsunum.

„Það safnaðist vatn fyrir innan bakka sem liggur ofan við hús í Vallargerði, utarlega í þorpinu," sagði Ingi Lár Vilbergsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Ársólar, en hann var við tíunda mann í aðgerðum í morgun.

„Þegar vatnið hafði safnast í lón ýtti það bakkanum á undan sér niður á milli tveggja húsa. Skriðan gæti hafa verið um 30 rúmmetrar." Ingi Lár segir ekkert af aurskriðunni hafa farið inn í húsin tvö, en vatnið hafi haldið áfram að flæða eftir að skriðan fór niður og upp að glugga á húsi.

„Við mættum 11 manns á staðinn og fórum í fráveitu, að moka frá glugganum og veita vatninu í burtu svo það færi ekki í kjallarann. Það rennur nú í niðurfall fyrir neðan. Orsökin fyrir því að vatn fór að safnast ofan við bakkann er að niðurfall nokkru ofan við þessi hús var fennt í kaf og klaki yfir því. Þarna er gamall lækur sem búið var að setja í stokk, en flæddi yfir og því fór sem fór."

Ingi Lár segir heppni, að aurflóðið skyldi renna á milli húsanna tveggja. Skemmdir hafi orðið í kringum veg og mikill jarðvegur sem moka þurfi í burtu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert