Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir eðlilegt að Margréti Sverrisdóttur hafi verið sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri þingflokksins í gær þar sem hún þurfi tíma til að vinna að framboðsmálum í aðdraganda kosninga. Hann hafnar því alfarið að uppsögnin tengist gagnrýni Margrétar á hugmyndir Jóns Magnússonar um innflytjendur.
„Það er bara eðlilegt að störfum hennar sem framkvæmdastjóri þingflokksins ljúki þannig að hún hafi nægan tíma til að vinna að sínum framboðsmálum í aðdraganda kosninga,“ segir Guðjón. „Hún mun þurfa að vinna af fullum krafti hér í Reykjavík og hún er náttúrulega starfsmaður okkar þingmanna og við viljum hafa fullan aðgang að einhverri manneskju í kosningabaráttunni og ekki þurfa að trufla hana í þeim slag sem hún er í.
Guðjón segir, að talað hafi verið um þessi mál við Margréti í sumar, en Margrét segir hins vegar, að hingað til hafi ekki þótt ósamrýmanlegt öðrum störfum hennar að vera í framboði, hvorki í síðustu alþingiskosningum, þegar hún fór fyrir listanum í sama kjördæmi, eða í borgarstjórnarkosningum á síðasta ári.
„Við fundum auðvitað fyrir því, að hún var mjög upptekin fyrir síðustu kosningar og mikið álag á henni. Og við getum alveg velt þeirri spurningu upp hvort þau fáu atkvæði sem hana vantaði til þess að komast inn á þing hafi ekki einmitt glatast vegna þess að hún hafði ekki nógu mikinn tíma til að djöflast í sínu eigin framboði.“
Guðjón neitar því alfarið að uppsögn Margrétar tengist gagnrýni hennar á hugmyndir Jóns Magnússonar um málefni innflytjenda. „Ég átta mig nú bara ekkert á þessu tali um Jón Magnússon. Hann er bara flokksmaður í flokknum og hefur engar vegtyllur innan flokksins og hefur ekki komið nálægt því að stjórna neinu starfi hér í flokknum. Þannig að ég skil ekki alveg þessa umræðu, hvers vegna hún kýs að tengja þessa eðlilegu ráðstöfun við einhvern mann út í bæ. Ég kveiki ekki alveg á því og það verða einhverjir aðrir að gefa skýringu á þeirri hugsun heldur en ég,“ segir Guðjón.
„Við viljum heldur ekkert að sú staða komi upp á vordögum að menn þurfi að greiða tvöföld laun af ríkisfé því við greiðum henni laun af fjármunum sem flokkurinn fær, sem framkvæmdastjóri þingflokks og ef hún nær kjöri 12. maí fær hún einnig laun sem þingmaður. Og þó að við teljum að henni veiti ekkert af að láta af störfum 1. mars þá er það þannig að hún á inni allt sitt sumarfrí þannig að mér sýnist að allar greiðslur falli niður í lok apríl. Við viljum ekkert fá þá umræðu inn í flokkinn að menn séu á tvöföldum launum af ríkisfé.“
Segir innflytjendamál líklega hafa áhrif á gott gengi
Skoðanakannanir benda til þess, að Frjálslyndi flokkurinn hafi bætt við sig miklu fylgi að undanförnu. „Ég býst við því að umræður um innflytjendamál hafi vakið þó nokkra athygli á flokknum og kannski vakið athygli á þeim málum sem við höfum verið að tala fyrir, við höfum náttúrulega ekki bara verið að tala um innflytjendamál.“
„Við höfum orðið vör við það að fólk sé að ganga í flokkinn og það eru ekkert allir að gera það vegna innflytjendaumræðunnar þótt vissulega hafi hún átt þátt í því,“ segir Guðjón.
„Varðandi þessa umræðu þá hófum við hana í apríl í vor og mótuðum þá okkar afstöðu og sérstöðu varðandi hvað við teldum að ætti að gera í þessum málum. Okkur kom það á óvart þegar þjóðin vaknaði allt í einu í haust í sömu umræðu og við höfðum haldið uppi nokkrum mánuðum áður.“
„Við teljum að þessi umræða hafi verið til góðs þótt einhverjir hafi reynt að stimpla okkur rasista, hún hefur vakið íslensk stjórnvöld af værum blundi, málin eru bara ekki í lagi og fólk er farið að átta sig á því að hér búa þúsundir útlendinga í ólöglegu húsnæði sem er hlutur sem við vissum fyrir mörgum mánuðum síðan.“
„Þessi umræða hefur líka orðið til þess að menn tóku afstöðu gagnvart tveimur nýjum ríkjum Evrópusambandsins, að bæta ekki við þetta vandamál heldur reyna að leysa það sem fyrir er og gera það þá þannig að allir geti vel við unað.“
„Ef að umræðan hefur orðið til þess þá erum við mjög sátt við það,“ segir Guðjón að lokum.