Í tilefni fullveldisdagsins héldu stúdentar við Háskóla Íslands málþing þar sem menn ræddu stefnu Háskóla Íslands sem lögð var fram síðastliðið vor. Að málþinginu loknu gengu stúdentar fylktu liði út í gamla Hólavallakirkjugarð við Suðurgötu og lögðu blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar.
Athöfnin í kirkjugarðinum var ekki fjölsótt og taldi Sigurður Örn Hilmarsson formaður stúdentaráðs að stúdentar væru einfaldlega of uppteknir við próflestur.
Sigurður Örn var hins vegar ánægður með málþingið sem var útvarpað beint á Ríkisútvarpinu og þar kom fram að fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna studdu stefnu Háskóla Íslands.