Hafði ekki samráð við Halldór

Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra
Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra Þorvaldur Örn Kristmundsson

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hafði ekki samráð við Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formann flokksins, áður en hann flutti ræðu sína á miðstjórnarfundi flokksins um síðustu helgi. „Ég hafði ekki sérstakt samráð við Halldór í aðdraganda miðstjórnarfundarins,“ segir Jón í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Aðspurður kveðst Jón ekki hafa heyrt í Halldóri eftir miðstjórnarfundinn. Hann telur ekki að Halldór líti þannig á að hann hafi komið í bakið á honum með umsögn sinni um ákvarðanatöku íslenskra stjórnvalda um stuðning við stríðið í Írak:

„Það kæmi mér mjög á óvart. Ég hef enga ástæðu til þess að vinna þannig gagnvart honum, þó að ég sé honum ekki sammála í einu og öllu. Þú sérð það til dæmis, ef þú lest ræðuna mína, að í henni eru margar áherslur aðrar en Halldór Ásgrímsson hefur lagt. Í því felst enginn áfellisdómur; í því felst einfaldlega að ný forysta er að líta yfir sviðið, meta stöðu og horfur og skerpa á sérstöðu, arfi og erindi Framsóknarflokksins við þjóðina á nýjan hátt,“ segir Jón.

Samsteypur auðmanna leggi ekki allt landið undir sig Viðskiptaráðherra segir að tryggja verði að hér sé raunveruleg samkeppni og valfrelsi og það verði ekki þannig „að örfáar samsteypur auðfélaga og auðmanna leggi allt landið undir sig“.

Ráðherrann telur að það sé farsælast að gera það á þann veg að reynt verði að efla, styrkja og treysta stöðu litlu fyrirtækjanna og þeirra sem eru að berjast við að koma inn á markaðinn, til dæmis sprotafyrirtækja og nýsköpunarfyrirtækja.

„Það er hægt að gera með margvíslegum hætti, en ég vil leggja á það sérstaka áherslu, að það verður aldrei gert í eitt skipti fyrir öll. Það er alveg sama hvað er gert, það þarf alltaf að huga að næstu skrefum. Þannig er þetta eilífðarverkefni, því að frjálst athafnalíf heldur áfram, þróast og breytist og þannig þarf lagaramminn um athafnalífið einnig stöðugt að þróast og breytast. En við verðum líka að hafa það í huga að í litlu hagkerfi verður fákeppni og jafnvel einokun á ýmsum sviðum, og þá þarf að bregðast við þessu í samkeppnislögum,“ segir Jón Sigurðsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert