Fer aftur til Hæstaréttar

eftir Agnesi Bragadóttur

agnes@mbl.is

LÚÐVÍK Gizurarson hæstaréttarlögmaður hefur um langa hríð háð baráttu fyrir því að fá úr því skorið hvort Hermann heitinn Jónasson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hafi verið faðir hans. Upphafleg krafa hans var sú að lífsýni úr honum sjálfum, Dagmar móður hans og Hermanni yrðu borin saman til þess að skera úr um hvort Hermann væri faðir hans og síðar að blóðsýni úr honum og börnum Hermanns yrðu borin saman.

Tvívegis hefur Héraðsdómur Reykjavíkur heimilað slíka rannsókn en Hæstiréttur hefur jafnoft snúið við dómi héraðsdóms og synjað um rannsóknina. Málaferlum er ekki lokið, því Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú heimilað blóðrannsókn í þriðja sinn, á grundvelli frekari vitnaleiðslna á vegum Lúðvíks, en sá úrskurður hefur verið kærður til Hæstaréttar af börnum Hermanns.

Í skriflegum vitnisburði systkina Lúðvíks, sem héraðsdómur hefur þegar tekið afstöðu til, segir m.a.: "Nú eftir að málaferli þessi eru komin í hámæli, teljum við að ekki verði vikist undan þeirri skyldu að bera sannleikanum vitni. Hann er sá, að báðir foreldrar okkar töldu Lúðvík son Hermanns Jónassonar. Þess erum við einnig fullviss og kemst þar enginn efi að. Yfirlýsingu þessa gefum við að viðlögðum drengskap." Undir yfirlýsinguna rita tvö systkin Lúðvíks.

Dóra Lúðvíksdóttir segir m.a. í samtali við Morgunblaðið í dag: "Allt frá því ég var lítil stúlka hef ég heyrt að Hermann Jónasson væri faðir föður míns, þ.e. afi minn. ...

Það var svo ekki fyrr en ég var orðin fullorðin, að ættingjar mínir sögðu mér beinum orðum, að amma mín hefði átt föður minn með Hermanni."

Dóra segir að þetta sé spurning um grundvallarmannréttindi, sem varin séu með barnalögunum með skýrum hætti.

Sjá nánar á bls. 10 í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert