„Öflugur hópur að koma fram á sjónarsviðið“

Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri-grænna.
Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri-grænna. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, segir að hvernig sem útkoman hefði orðið í forvali flokksins fyrir höfuðborgarsvæðið í gær, hefði hún orðið góð þar sem sérlega öflugt fólk hafi boðið sig fram. Ögmundur hlaut flest atkvæði í fyrsta sæti. „Maður sér þarna koma fram á sjónarsviðið margt fólk sem ég efast ekki um að á eftir að láta mikið að sér kveða í stjórnmálum á komandi árum, þó það hafi ekki allt skipast í fremstu sveit að þessu sinni,“ segir Ögmundur.

Góð kosning kvenna sé einnig gleðiefni fyrir flokkinn. Ögmundur segir að nú taki við kosningabarátta fyrir Alþingiskosningar og í henni verði einna mest áhersla lögð á að bæta kjör þeirra sem lökust hafa í íslensku samfélagi.

„Það er mjög brýnt að það verði snúið af þeirri misréttisbraut sem við höfum haldið okkur á, á undanförnum árum og skjóta styrkum stoðum undir jafnaðarsamfélag,“ segir Ögmundur. Ögmundur segir ánægjulegt að sjá hversu margt fólk, ungt og eldra, sé á leið inn á pólitískan vettvang VG. „Það er greinilegt að mikið mannval verður í okkar röðum.“

Ögmundur segist bjartsýnn á framtíð flokksins, bæði í nánd og lengd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka