Fjármálaráðherra vill fresta umfjöllun um breytingar á áfengisgjaldi

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/ÞÖK

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, lagði til á Alþingi í dag að frestað verði um sinn að lækka virðisaukaskatt á áfengi og hækka áfengisgjald á móti eins og gert er ráð fyrir í stjórnarfrumvarpi um lækkun virðisaukaskatts á matvælum og þjónustu í veitingarekstri. Árni mælti fyrir frumvarpinu í dag og sagði mikilvægt að afgreiða aðrar greinar frumvarpsins þar sem þær hefðu áhrif á forsendur fjárlaga.

Árni sagði, að talsverð umræða hefði að undanförnu orðið um áhrif frumvarpsins á áfengisverð og þeir aðilar, sem ættu viðskipti með þessa vöru, hafi lýst þeirri skoðun, að verðið muni hækka umtalsvert. Árni sagði ljóst, að þessar breytingar hefðu mismunandi áhrif eftir áfengistegundum og hugsanlegt væri, að þær hefðu í för með sér mismunandi breytingar á innheimtu tekna ríkisins vegna áfengissölu í veitingahúsum annars vegar og í áfengisverslunum hins vegar.

Árni sagði ljóst, að um væri að ræða verulegar breytingar og greinilegt að þær hefðu valdið talsverðri ólgu. Tímafrekt væri að fara yfir útreikninga, sem byggðust á mismunandi og hugsanlega misvísandi forsendum. Árni sagði að það hefði alltaf legið fyrir, að umrædd breyting ætti ekki að hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs. Nú væri nokkuð skammur tími eftir til að ljúka þingstörfum fyrir jól, og því væri skynsamlegt að fresta að taka afstöðu til þessara frumvarpsgreina enda skiptu þær ekki máli fyrir forsendur fjárlaga næsta árs. Því legði hann til, að efnahags- og viðskiptanefnd frestaði umfjöllum um þær greinar frumvarpsins, sem fjölluðu um lækkun virðisaukaskatts á áfengi og hækkun áfengisgjalds. Farið yrði betur yfir í málið í fjármálaráðuneytinu og hugsanlega leitað annarra leiða til að lækka virðisaukaskattinn á áfengi án þess að ríkissjóður tapi tekjum.

Árni lagði hins vegar áherslu á, að aðrar greinar frumvarpsins næðu fram að ganga á þessu ári vegna þess að þær hefðu áhrif á forsendur fjárlaga. Sagði hann, að gera mætti ráð fyrir því, að vísitala neysluverðs lækkaði um 2,6-2,7% þegar breytt lög tækju gildi.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar, einkum Samfylkingarinnar, gagnrýndu fjármálaráðherra fyrir slæleg vinnubrögð og sagðist Kristján L. Möller ekki hafa áður orðið vitni að því, að flutningsmaður frumvarps bæði þingnefnd að fresta umfjöllun um mál. Raunar sagðist Kristján efast um að um væri að ræða mistök heldur hefði fjármálaráðherra ætlað að fá þá 3 milljarða í ríkissjóð, sem reiknað hafi verið út að áfengisverðbreytingarnar myndu skila. Þessu vísaði Árni á bug.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert