Það varð ljóst um kl. 17 síðdegis að ekki myndi takast að bora síðasta berghaft aðrennslisganga Kárahjúkavirkjunar í dag eins og til stóð. Höfðu um 70 manns beðið í ríflega þrjár klukkustundir 180 metrum undir yfirborði Fljótsdalsheiðar og yfir 12 km inni í borgöngunum eftir því að risaborinn TBM3 tæki að hreyfast.
Þrátt fyrir langa bið og blauta vist gerðu menn sér ýmislegt til dundurs, svo sem eins og að syngja saman jólalög og rabba um landsins gagn og nauðsynjar. Nóg var að bíta og brenna inni í göngunum, enda hafði veitingafólk úr vinnubúðunum við aðgöng 2, Axará, verið á svæðinu frá því kl. 10 í morgun til að gera klára veislu eftir gegnumbrotið.
Talsverður vatnsagi var í göngunum og höfðu menn á orði að ekki hefði verið spáð rigningu, en þó rigndi bara nokkuð hressilega ofan í hálsmálið hjá þeim. Hafði verið tjaldað yfir hluta ganganna til að verja gestina fyrir vatni úr berginu.