Alls 565 konur, eða 46% kvenna sem komu í Kvennaathvarfið á árunum 2001-2005, höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi einhvern tímann á ævinni, annað hvort tengdu heimilisofbeldi eða ekki. 488 konur, eða 40% þeirra sem komu í Kvennaathvarfið, höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi sem ekki var hluti af heimilisofbeldi. Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar Ingibjargar Þórðardóttur, sem er á lokaári í námi félagsráðgjafa við Háskóla Íslands og hefur starfað í Kvennaathvarfinu.
"Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort tengsl væru á milli kynferðisofbeldis og heimilisofbeldis," sagði Ingibjörg. Hún sagði að í langflestum tilvikum kæmu konur í Kvennaathvarfið vegna ofbeldis af hálfu maka, fyrrverandi maka eða annars sem þær væru háðar á einhvern hátt.
Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar nánar á hádegisfundi sem Samtök um kvennaathvarf, í samvinnu við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi, efna til í dag í stofu Jóns Sigurðssonar í Þjóðmenningarhúsi. Fundurinn hefst kl. 12.15 og stendur til kl. 13.00.