Borað var í gegn um aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar um klukkan 10:30 í morgun. Það var bor 3 sem fór í gegn um síðasta haftið og var þetta síðasta gegnumbrot í aðrennslisgöngunum sjálfum. Síðasta haftið var um 170 sentimetra þykkt og var skekkjan einnig um 70 sentimetrar. Gianni Porta, yfirmaður verktakafyrirtækisins Impregilo á Íslandi, sagði að nú væri mesta óvissuþætti framkvæmdarinnar sennilega lokið en bætti við að aldrei væri á vísan að róa þegar unnið væri neðanjarðar.
Um 40 manns fylgdust með því í morgun, um það bil 180 metrum undir yfirborði jarðar, þegar borvélin vann á síðasta haftinu, og var létt brúnin á viðstöddum þegar borinn kom í ljós. Til stóð að bora í gegn í gær en því varð að fresta vegna þess að tveir vökvatjakkamótorar í bornum brunnu yfir. Viðgerð á mótorunum stóð yfir í alla nótt en hægt var að halda boruninni áfram í morgun.
Gegnumbrotið var um 14 km frá Hálslóni, sem er að myndast hægt og hægt en það er nú komið í 560 metra yfir sjávarmáli. Nú verður farið í að styrkja göngin og fóðra þau þar sem þarf. Reyknað er að því verði lokið í maí. Sömuleiðis verður farið í að heilbora göng í áttina að Jökulsárveitu en þaðan verður vatn flutt inn í aðrennslisgöngin.
Aðrennslisgöngin eru 40 km að lengd og 7,5-7,8 metrar í þvermál. Hefur tekið um tvö og hálft ár að bora þau með þremur risastórum borvélum.