Formenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi hafa lagt fram frumvarp um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Segir í frumvarpinu að tilgangur þess sé að kveða á um fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum. Markmiðið er að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.
Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um að stjórnmálasamtökum og frambjóðendum sé óheimilt að taka á móti hærri framlögum frá lögaðilum en sem nemur 300.000 krónum á ári. Undanþegin slíku hámarki séu þó framlög í formi afslátta svo fremi um sé að ræða almenna afslætti sem veittir eru frá markaðsverði með opinberum hætti og slíkir afslættir séu sérgreindir í reikningum.
Þá verður stjórnmálasamtökum og frambjóðendum óheimilt að taka á móti hærri framlögum frá einstaklingum en sem nemur 300.000 krónum á ári. Til framlaga í þessum skilningi teljast ekki almenn félagsgjöld stjórnmálasamtaka sem innheimt eru með reglubundnum hætti og eru ekki umfram 100.000 krónur á ári.
Þá eru í frumvarpinu ákvæði um heildarkostnaður frambjóðenda í prófkjörum af kosningabaráttu. Má hann ekki verið hærri en sem nemur 1 milljón króna, að viðbættu álagi eftir fjölda íbúa á hverju kjörsvæði.
Samkvæmt frumvarpinu skal árlega úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.
Þá skal árlega úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi þingflokka á Alþingi samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Greiða skal jafna fjárhæð fyrir hvern þingmann og nefnst hún eining. Að auki skal greiða eina einingu fyrir hvern þingflokk. Því til viðbótar skal úthluta fjárhæð sem svarar tólf einingum til þingflokka þeirra stjórnmálasamtaka sem eiga ekki aðild að ríkisstjórn og skiptast þær einingar hlutfallslega milli þeirra.
Sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa er skylt, samkvæmt frumvarpinu, en öðrum sveitarfélögum heimilt, að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar. Ákvörðun um slík framlög tekur sveitarstjórn samhliða samþykkt fjárhagsáætlunar. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn og skal hún vera í eðlilegu hlutfalli við stærð sveitarfélagsins.
Þá á að veita fé á fjárlögum til þess að styrkja frambjóðendur til embættis forseta Íslands þau ár sem forsetakosningar fara fram. Þeirri fjárhæð skal úthluta eftir umsókn að afloknum kosningum til þeirra frambjóðenda sem hlotið hafa a.m.k. einn tíunda hluta greiddra atkvæða í kosningunum, í réttu hlutfalli við atkvæðamagn. Framlagið getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem svarar kostnaði frambjóðanda af kosningabaráttu, að frádregnum framlögum lögaðila og einstaklinga.