Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, sem kynnt var í dag gerir ráð fyrir rúmlega 13,7 milljarða króna rekstarafgangi á næsta ári samanborið við rúmlega 1 milljarðs króna halla á þessu ári. Áætlað er að skatttekjur hækki en rekstargjöld lækki miðað við yfirstandandi ár. Fjárhagsáætlunin er til umræðu á borgarstjórnarfundi sem hófst klukkan 14.
Heildartekjur A-hluta eru áætlaðar 52.174 milljónir króna samanborið við 49.110 milljónir á þessu ári, sem er 6,2% hækkun milli ára. Rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði eru áætluð 50.593 milljónir samanborið við 52.799 milljónir á þessu ári sem er 4,2% lækkun milli ára. Breyting á lífeyrisskuldbindingu vegna sölu á eignarhlut borgarinnar í Landsvirkjun vegur þyngst í þessu sambandi.
Gert er ráð fyrir að handbært fé frá rekstri verði 2868 milljónir samanborið við 2047 milljónir á þessu ári, sem er 40% hækkun milli ára. Aðrar sjóðstreymishreyfingar eru þær að gert er ráð fyrir að 2820 milljónir komi frá fjárfestingaliðum og fjármagnshreyfingar verði jákvæðar um 62 milljónir. Áætluð aukning á handbæru fé nemur 5750 milljónum.
Gert er ráð fyrir að bókfærðar heildareignir nemi 78.203 milljónum í lok næsta árs samanborið við 88.761 milljón í útkomuspá þessa árs sem er 10.558 milljóna lækkun milli ára eða sem nemur 11,9%. Lækkunin skýrist af sölu eignarhluta Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun en andvirði sölunnar var ráðstafað til Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar. Heildarskuldir án lífeyrisskuldbindingar eru áætlaðar 14.283 milljónir samanborið við 15.064 milljónir í útkomuspá þessa árs sem er 781 milljónar króna lækkun milli ára eða 5,2%. Heildarskuldir nema því 28.507 milljónir í lok árs 2007 samanborið við 52.788 milljónir í útkomuspá ársins 2006.
Samstæðuársreikningur Reykjavíkurborgar samanstendur af A- og B-hluta. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki og rekstrareiningar sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar. Fyrirtæki og rekstrareiningar sem falla undir B-hluta eru: Bílastæðasjóður Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Orkuveita Reykjavíkur, Félagsbústaðir hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Íþrótta- og sýningarhöllin hf., Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs.
Í samstæðureikningi Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir að heildartekjur verði 79.679 milljónir samanborið við 74.806 milljónir í útkomuspá 2006 sem er 6,5% hækkun milli ára. Rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði eru áætluð 72.020 milljónir samanborið við 74.262 milljónir í útkomuspá þessa árs sem er 3% lækkun milli ára. Rekstrarafgangur 2007 er áætlaður 13.480 milljónir samanborið við 3325 milljónir árið 2006.
Gert er ráð fyrir að handbært fé frá rekstri verði 10.459 milljónir samanborið við 8135 milljónir í útkomuspá ársins sem er 28,5% hækkun milli ára. Handbært fé í árlok 2007 er áætlað 10.326 milljónir en það eykst um 5761 milljónir á árinu.
Gert er ráð fyrir að bókfærðar heildareignir nemi 247.853 milljónum í árslok 2007 samanborið við 250.009 milljónir í útkomuspá þessa árs sem er 2.146 milljóna lækkun á milli ára eða 0,9%. Breytingin skýrist einkum af sölu á eignarhlut borgarinnar í Landsvirkjun.