Así lýsir undrun sinni "á undirritun viljayfirlýsingar um fríverslunarviðræður við Kína, sem endurspegla áform um að ætla íslenskum fyrirtækjum og launafólki að keppa á jafnréttisgrundvelli við ríki sem virða ekki grundvallarmannréttindi," eins og segir í yfirlýsingu sem sambandið sendi frá sér í gær.
ASÍ kveðst hafa áður komið á framfæri, bæði við íslensk og kínversk stjórnvöld, áhyggjum sínum af stöðu mannréttindamála í Kína, einkum hvað varðar starfsemi frjálsra stéttarfélaga og rétt manna til þess að ganga í stéttarfélög.
"Alþýðusambandið telur það mjög vafasamt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að hefja fríverslunarviðræður við ríki þar sem ríkisreknum stéttarfélögum er veitt einkaleyfi til starfsemi, þar sem forustumenn frjálsra stéttarfélaga eru fangelsaðir og þar sem launafólki er bannað að nota verkföll til að fylgja eftir kröfum sínum. Kínversk stjórnvöld hafa á undanförnum árum með grófum hætti brotið mikilvægar alþjóðasamþykktir í mannréttindamálum, samþykktir sem kínversk stjórnvöld undirgengust sjálfviljug í mars 2001. Mikilvægastar í þessu sambandi eru grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, þar sem skýrt er kveðið á um frelsi til að stofna stéttarfélög og frelsi til að semja um eigin kjör."