Þriðju og síðustu umræðu um fjárlög næsta árs lauk klukkan 23:43 í kvöld og er áformað að lokaatkvæðagreiðsla verði fyrir hádegi á morgun. Fjárlögin voru eina málið, sem komst á dagskrá Alþingis í dag en m.a. hafði verið gert ráð fyrir því að áfram yrði haldið umræðu um frumvarp fjármálaráðherra um lækkun virðisaukaskatts á matvælum.