Fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár var samþykkt á Alþingi í dag með 34 samhljóða atkvæðum stjórnarliða en 26 þingmenn stjórnarandstöðunnar sátu hjá. Samkvæmt frumvarpinu verður rúmlega 9 milljarða króna tekjuafgangur af rekstri ríkissjóðs á næsta ári. Tillögur stjórnarandstöðunnar, um að hækka frítekjumark aldraðra og öryrkja og veita 5 milljörðum aukalega til úrbóta í búsetu- og umönnunarmálum aldraðra, voru felldar.
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði á þingfundinum, að fjárlagafrumvarpið markaðist af því mikla hagvaxtarskeiði, sem hér hefði verið á undanförnum árum. Frumvarpið einkenndist af þremur þáttum. Í fyrsta lagi væri það síðasti áfangi í mesta skattalækkunarferli, sem lagt hefði verið upp með hér á landi. Í öðru lagi væri lagt upp með stærsta verkefni síðustu ára til að bæta kjör og aðstæður aldraðra og í þriðja lagi væri lagt upp með stærsta átak til að lækka matvælaverð með lækkun virðisaukaskatts á matvæli og veitingaþjónustu.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að flokkur sinn vísaði alfarið ábyrgð á frumvarpinu á ríkisstjórnina, sem hefði enga stjórn á efnahagsmálum eða ríkisfjármálum. Þetta væru útgjaldafjárlög og kosningafjárlög því útgjöldin ykjust um 16,7% milli ára en samt væru vanefndir gagnvart öryrkjum, öldruðum og verkalýðshreyfingunni.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði að þetta væri vonandi síðasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem væri að reyna að kaupa sér vinsældir og lægja öldur fyrir kosningar. Sagði Steingrímur að þrátt fyrir það væru mikilvægir málaflokkar í heilbrigðis- og menntamálum fjársveltir en upp úr stæði gríðarlegt ójafnvægi í efnahagsmálum og gagnvart því stæði ríkisstjórnin aðgerðarlaus og flyti sofandi að feigðarósi.
Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins lýsti vonbrigðum með að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa haft manndóm í sér til að taka undir tillögur stjórnarandstöðunnar um að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Stjórnarliðar sætu upp með þá skömm.
Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, sagði í atkvæðaskýringu að um væri að ræða velferðarfrumvarp þar sem stórauknum fjármunum væri varið í heilbrigðis-, mennta- og félagsmál. Barnabætur væru stórhækkaðar og skattleysismörk væru hækkuð í 90 þúsund krónur sem muni nýtast lágtekjufólki. Þá væri tekjuskattur einstaklinga lækkaður um 1% og ríkisstjórnin hefði ákveðið að lækka virðisaukaskatt á matvælum 1. mars, sem muni leiða til minni verðbólgu og lægra matvælaverðs. Þannig væri verið að bæta hag allra fjölskyldna í landinu og á sama tíma væri haldið áfram að greiða niður skuldir þjóðarbúsins.
Meðal þeirra tillagna, sem voru samþykktar í fjárlagaafgreiðslunni, var tillaga um heiðurslaun til 30 listamanna, þremur fleiri en á síðasta ári. Tveir þingmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni, Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingar. Jón gerði grein fyrir atkvæði sínu, og sagði það skoðun sína, að það væri tímaskekkja að Alþingi veitti heiðurslaun með þessum hætti. Hann sæi ekki rökin fyrir því, að ein stétt fólks væri tekin út með þessum hætti og fengi heiðurslaun.