Forseti Íslands og Svíakonungur verndarar nýs fræðasafns

Svíakonungur, Karl Gústaf, mun ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands vera verndari nýs fræðaseturs á Húsavík, Garðarshólmi. Þetta kom fram í máli forseta Íslands þegar fræðasetrið var vígt í morgun. Í fræðasetrinu verður að finna upplýsingar um sænska landkönnuðinn, Garðar Svavarsson og samferðamanns hans Náttfari, sem sigldu skipi sínu umhverfis Ísland.

Þeir tóku land við flóa á Norðausturlandi sem Garðar nefnir Skjálfanda og byggja hús á stað er hann kallar Húsavík. Garðar hefur vetursetu á Húsavik og þar með er landnám norræna manna hafið á Garðarshólma, sem síðar hlaut nafnið Ísland.

Í Garðarshólma verða sýningar tengdar viðfangsefninu, landnámi Garðars Svavarssonar. Við gerð sýninganna verður notast við nýjustu tækni á sviði margmiðlunar, samkvæmt því sem fram kemur á vef fræðasetursins.

Frumkvöðlar verkefnisis eru Norðurþing og Norður-Sigling.

Þekkingarsetrinu er einnig ætlað að tengjast alþjóðlegri umræðu um sjálfbæra þróun og framtíð vistkerfa jarðarinnar og að vera vettvangur fyrir fundi og rannsóknir fræðimanna víða að úr veröldinni. Að auki er rætt um að á vegum Garðarshólma verði fjallað um þróun siglinga á norðurslóðum.

Ólafur Ragnar ræddi þessar hugmyndir við konung Svíþjóðar fyrr á þessu ári og nú hefur konungurinn samþykkt að vera verndari Garðarshólma ásamt forseta Íslands. Mjög sjaldgæft er að konungur Svíþjóðar gerist verndari verkefna utan síns heimalands. Vefur fræðasetursins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert