Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir hleranir á símum þingmanna og stjórnarandstöðu pólitískar njósnir, heimskulegt athæfi og ganga þurfi úr skugga um að það endurtaki sig ekki. Engin heimild sé fyrir því að þeir sem vitað er að voru hleraðir, alþingismenn eða aðrir, hafi ógnað öryggi ríkisins. Mjög takmarkaðar upplýsingar sé að fá um leyniþjónustu og starfsemi hennar og nauðsynlegt að leggja þær á borðið.
Til þess þurfi þingsályktunartillögu um að slíkt verði gert, að nefnd verði skipuð til að rannsaka málið og veita þeim sem stunduðu hleranirnar sakaruppgjöf fyrir fram. Ekki þýði að segja að menn vilji fá allt upp á borðið án þess að gera þetta.
Þetta kom fram á opnun fundi í Háskóla Íslands í dag um svokallað óvini ríkisins, þá sem hlerað var hjá og fylgst með á tímum kalda stríðsins. Þar var m.a. rætt um tilfelli þess að fólk hafi ekki fengið vegabréfsáritun frá bandaríska sendiráðinu á Íslandi af einhverjum ástæðum og þá líklega stjórnmálaskoðana umsækjenda eða ættingja þeirra. Jón Baldvin sagðist vita af hverju, haldin hafi verið spjaldskrá um svokallað hættulegt fólk og þeim upplýsingum komið til bandaríska sendiráðsins. Jón segist hafa heimildarmann fyrir því sem ekki verði nefndur á nafn.
Guðni Th. sagðist ekki í efa um að hleranir hafi átt sér stað, úrskurðað hafi verið um að hlerunum skyldi hætt, þannig að þær hljóti að hafa hafist. Allt orðfar og annað í kringum hleranirnar bendi hiklaust til þess að hlerað hafi verið. Sumarið 1968 hafi komið hingað grískir útlagar en með hlerunum hafi menn komist að því að þeir ætluðu að gera eitthvað við gríska utanríkisráðherrann, henda í hann tómötum. Mennirnir voru handteknir. Þar sé skýrt samhengi milli aðgerða og hlerana en spurning hvort hleranir hafi verið þess virði í slíku tilfelli.