Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segist andvígur því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag í eigu ríkisins og hann haldi sig við samþykkta stefnu Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun og rekstur hennar tryggður með þjónustusamningi við ríkið.
Kristinn segir á heimasíðu sinni, að eftir síðustu kosningar hafi stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn verið endurnýjað en ekki gengið að kröfu hans um RÚV. Það sé því ekki hluti af stjórnarsáttmálanum, að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag.
„Ég er ekki tilbúinn til þess að taka nú upp stefnu Sjálfstæðisflokksins og vil halda mig við þá stefnu sem flokkurinn bar fram fyrir kjósendur í síðustu Alþingiskosningum og sem ég tel að enn sé stefna flokksins. Tilgangur þess að breyta stofnun í hlutafélag er sá einn að selja síðar," segir Kristinn m.a.