Ríkissjóður greiðir Birni Friðfinnssyni full laun og miskabætur

Íslenska ríkið mun greiða Birni Friðfinnssyni full laun til sjötugs …
Íslenska ríkið mun greiða Birni Friðfinnssyni full laun til sjötugs og miskabætur upp á tvær milljónir króna mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í dag lauk með réttarsátt dómsmáli sem Björn Friðfinnsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu höfðaði gegn íslenska ríkinu vegna þess að Björn fékk ekki aftur starf ráðuneytisstjóra eftir að hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra Eftirlitsstofnunar EFTA í launalausu leyfi frá ráðuneytinu. Ríkissjóður fellst á að greiða Birni laun til sjötugs ásamt miskabótum að fjárhæð 2 milljónir króna.

Í yfirlýsingu frá Birni kemur fram að Björn, sem hafi verið skipaður ráðuneytisstjóri með æviráðningu, hafi í ágúst 1993 fengið launalaust leyfi frá störfum til þess að gegna starfi framkvæmdastjóra Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel í tvö ár. Það leyfi var síðar framlengt til ársloka 1996 með bréfi Finns Ingólfssonar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, en um leið var tekið fram í bréfi ráðherra að ekki yrði um frekari framlengingu leyfisins að ræða. Vorið 1996 sagði Björn síðan upp starfi sínu hjá ESA og bjó sig til heimferðar í árslok. Fáum dögum fyrir heimkomuna bárust honum síðan boð ráðherra um að hann hefði skiptu um skoðun og hygðist nú ekki fela honum starf ráðuneytisstjóra að nýju. Engar ástæður voru tilgreindar fyrir þessum sinnaskiptum en tekið var fram að í staðinn gæti Björn fengið starf hjá undirstofnun ráðuneytisins, að því er segir í yfirlýsingu frá Birni.

Björn sætti sig ekki við þetta en niðurstaðan varð sú að hann féllst á að taka við starfi sérstaks ráðgjafa ríkisstjórnarinnar um EES mál um tveggja ára skeið enda var um leið gerður samningur um að hann skyldi snúa til fyrra starfs í síðasta lagi að tveimur árum liðnum. Þegar þar að kom var enn fyrirstaða hjá ráðherra um að Björn sneri til fyrri starfa í ráðuneytinu en þá var ákveðið að Björn tæki við stjórn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til fimm ára en þá voru einnig gerðar fleiri tilfærslur ráðuneytisstjóra milli ráðuneyta með samþykki þeirra. Um leið var gert skriflegt samkomulag um að Björn myndi taka við starfi ráðuneytisstjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu þegar fimm ára tímabilinu lyki.

„Ekki var staðið við það samkomulag af hálfu nýs ráðherra þegar til kom. Var endurkomu Björns frestað um 2 ár með nýjum samningi sem ekki var heldur efndur þegar til átti að taka. Björn höfðaði þá mál gegn ríkissjóði, þar sem aðalkrafa hans var að staðið yrði við gerðan samning um endurkomu hans í ráðuneytið. Jafnframt var krafist miskabóta vegna framkomu ríkisins í hans garð.

Niðurstaða dómssáttarinnar sem gerð var í dag er að ríkissjóður fellst á að greiða Birni laun til fullnaðs sjötíu ára aldurs ásamt miskabótum að fjárhæð 2 milljónir króna. Ríkissjóður áskilur sér rétt til að leita til Björns um ráðgjöf og verkefnavinnu á vegum ráðuneyta á meðan á launagreiðslum skv. réttarsáttinni stendur, en það skal þó ekki hindra Björn í að taka að sér verkefni fyrir aðra aðila," samkvæmt yfirlýsingu frá Birni.

Að sögn Arnars Þórs Jónssonar, lögmanns Björns Friðfinnssonar, er óvenjulegt að samþykkt sé jafn há miskakrafa og í máli þessu. Jafnframt var málskostnaður sérstaklega tekinn fyrir og var fallist á allar kröfur Björns í því sambandi og mun hann ekki bera neinn málskostnað af málinu.

Í yfirlýsingu Björns kemur jafnframt fram að að hann telji að sáttin sem gerð hafi verið og undirrituð er af forsætis-, fjármála- og iðnaðar- og viðskiptaráðherra feli í sér viðurkenningu á margföldum vanefndum ríkisins á gerðum samningum og ólögmætum vinnubrögðum af þess hálfu.

Björn telur einnig að málið ætti að vekja menn til umhugsunar um skort á skýrum reglum um réttindi þeirra starfsmanna hins opinbera sem taka að sér tímabundið að sinna á erlendri grundu störfum á vegum íslenskra stjórnvalda. Þar til slíkar reglur verða settar, er viðbúið að til fleiri dómsmála af svipaðri rót eigi eftir að koma, samkvæmt yfirlýsingu Björns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert