Lögreglan í Reykjavík stóð í gærkvöldi fimm drengi að verki við veggjakrot í austurborginni. Í kjölfarið fannst nokkuð af málningarúðabrúsum og pennum. Lögreglan segir, að veggjakrot sé víða vandamál í borginni.
Fleiri ungmenni komu við sögu lögreglunnar í Reykjavík í gær því síðar um kvöldið voru höfð afskipti af sjö unglingum á aldrinum 14-17 ára. Þeim var vísað út af veitingastað sem hefur vínveitingaleyfi. Dvöl þeirra var því brot á reglum en þess má líka geta að samkvæmt útivistarreglum áttu nokkrir úr hópnum að vera komnir til síns heima.