Jarðgöng líklegasti valkosturinn á Sundabraut

Hér gefur að líta mynd af sambærilegum göngum í Svíþjóð.
Hér gefur að líta mynd af sambærilegum göngum í Svíþjóð.

Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar segir að samráðsnefnd um byggingu Sundabrautar leggi til í samráði við samgönguráðherra og Vegagerðina að jarðgangaleið Sundaganga verði sett í umhverfismat. Segir Gísli Marteinn að ef niðurstaða umhverfismats sé jákvæð þá séu jarðgöng, sem ná á milli Gufuness og Lauganess, vænlegasti kosturinn hvað varðar gerð Sundabrautar.

Að sögn Gísla Marteins yrðu göngin 4 km löng og kosta þau um 16 milljarða króna í framkvæmd. Að vestan þá verður hægt að koma út úr göngunum á þremur stöðum, í Lauganesi, í átt að Reykjanesi og inn á hafnarsvæðið.

Í samráðsferli um 1. áfanga Sundabrautar með þátttöku Reykjavíkurborgar, íbúasamtaka Grafarvogs og Laugardals, Faxaflóahafna og Vegagerðarinnar var lögð áhersla á að kanna nánar jarðgangagerð á þeim áfanga. Ný jarðgangaleið var valin til skoðunar sem er lík legu sem var til skoðunar 1998- 1999, en gangamunni að austanverðu er nú nær Geldinganesi en áður var. Með því verður tenging við Geldinganes og Kjalarnes og framtíðar þjóðveg til norðurs beinni, en minni áhersla lögð á tengingu við Grafarvogshverfið.

Með lagningu Sundabrautar yfir Kleppsvík og áfram til norðurs yfir Leiruvog og Kollafjörð mun leið vestur á land frá miðborginni styttast um nær 9 km. Vegalengd frá miðborginni í Geldinganes mun styttast um nær 4 km eða um 30%. Þessar styttingar út frá miðborginni eru svipaðar og áður hafði verið reiknað með við leið I (ytri leið) á hábrú yfir Kleppsvík. Eftir sem áður reiknast heildarakstur á vegakerfinu minni fyrir höfuðborgarsvæðið ef Sundabraut verður lögð á leið III (innri leið) heldur en í göngum. Þverun Kleppsvíkur er í raun forsenda uppbyggingar í Geldinganesi.

Framkvæmdatími frá því ákvörðun um leiðarval liggur fyrir er áætlaður 4,5 ár á leið III en 5,5 ár verði jarðgöng fyrir valinu. Hægt er að stytta þann tíma eitthvað gangi allur undirbúningur snurðulaust.

Segir Gísli Marteinn, sem er formaður samráðsnefndar um Sundabraut, að skýrslan hafi verið lögð fram á fundi nefndarinnar nú áðan. Skýrslan sé mjög jákvæð í garð jarðgangna og að þau séu metin mjög arðsöm. Jarðgöng séu því ekki bara fær leið heldur um leið fýsilegur kostur. Gísli Marteinn segir að þessi leið leggist vel í nefndarmenn og því hafi sá kostur verið fyrir valinu að setja jarðgöng í umhverfismat. „Ef niðurstaða umhverfismats er jákvæð þá sjáum við þessa leið sem fyrsta kost."

Gísli Marteinn segir að meirihlutinn í borginni sé mjög ánægður með það að samgönguráðherra og Vegagerðin hafi viljað stíga þetta skref nú. Í fyrsta lagi að láta gera skýrsluna og í öðru lagi að taka niðurstöðum hennar þannig að það sé ástæða til að halda áfram með málið og setja það í umhverfismat og um leið að kanna jarðfræðina á leiðinni og halda hönnun áfram.

Gísli Marteinn segir að göngin séu ansi löng eða 4 km og því litlu styttri en Hvalfjarðargöngin en allt öðru vísi göng. Um borgargöng sé að ræða sem til að mynda eru öll upplýst.

Gísli Marteinn tekur fram að jarðgöng séu kostnaðarsöm en talið er að kostnaðurinn nemi um 16 milljörðum króna sem er um fjórum milljörðum meiri kostnaður heldur en við næstvænlegasta kostinn. Hins vegar eru jarðgöng umhverfisvænn kostur og eins góður kostur hvað varðar umferðaröryggi og hljóðverndarmál. Umferðin færist frá augum og eyrum borgarbúa og segist Gísli vonast til þess að umhverfið verði mannvænlegra í staðinn. Gísli segir að sérstaklega sé talað um gönguleiðir í skýrslunni enda er hvorki hægt að ganga né hjóla í gegnum jarðgöng.

Mynd af nýjum jarðgöngum í Stokkhólmi.
Mynd af nýjum jarðgöngum í Stokkhólmi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert