The Royal High Court of Justice í Lundúnum, sem er yfirréttur, ógilti í dag dóm sem var felldur var sumarið 2005 í meiðyrðamáli Jóns Ólafssonar gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Hannes hafði krafist ógildingar dómsins og jafnframt mótmælt því að dómurinn yrði fullnustaður hér á landi, að því er segir í tilkynningu frá lögmanni Hannesar, Heimi Erni Herbertssyni.
Ástæðan til ógildingar dómsins er sú, eins og Hannes hafði m.a. bent á, að stefna í málinu var ekki réttilega birt honum samkvæmt íslenskum lögum. Yfirrétturinn hafnaði þannig niðurstöðu ensks undirréttardómara frá því í maí sl. sem hafði talið sér heimilt að veita undanþágu frá hinum íslensku reglum um löglega birtingu stefnu.
Ákvörðun um málskostnað til handa Hannesi vegna þessarar niðurstöðu er til meðferðar hjá hinum breska dómstól.
Jón Ólafsson höfðaði mál árið 2004 fyrir breskum dómstól gegn Hannesi fyrir ummæli sem hann hafði látið falla í erindi á ráðstefnu norrænna blaðamanna í Reykholti haustið 1999. Ummælin höfðu birst á heimasíðu Hannesar sem vistuð var hjá Háskóla Íslands. Fram kemur í tilkynningu frá Heimi að Hannes hafi leitað álits lögfræðings HÍ og hjá dómsmálaráðuneyti vegna málsóknar Jóns og töldu báðir aðilar líklegast að breskur dómstóll myndi vísa málinu frá vegna skorts á lögsögu. Af þeim sökum tók Hannes ekki til varana í málinu í Bretlandi. Breski dómstóllinn kvað hinsvegar upp útivistardóm í málinu sumarið 2005 og voru Jóni Ólafssyni dæmdar skaðabætur og málskostnaður úr hendi Hannesar.
Að sögn Heimis felst í útivistardómi af þessu tagi að fallist er á kröfu stefnandans (Jóns Ólafssonar) án tillits til þeirra varna sem stefndi kann að hafa fram að færa í málinu, þar sem þeim var ekki verið komið á framfæri við dóminn af fyrrgreindum sökum. Að kröfu Jóns gerði Sýslumaðurinn í Reykjavík í kjölfar þessa fjárnám fyrir dómkröfunni í skuldabréfi, sem Hannes hafði fengið vegna sölu á húsi hans að Hringbraut 24.
„Í kjölfarið bar Hannes lögmæti fjárnámsgerðarinnar undir Héraðsdóm Reykjavíkur og krafðist þess jafnframt að dómurinn hafnaði því að umræddur útivistardómur yrði fullnustaður hér á landi. Byggði krafan á margvíslegum athugasemdum Hannesar við málatilbúnað Jóns, m.a. þeim að dómurinn væri ógildur. Í því skyni að fá úr því atriði skorið var það lagt fyrir breska dómstóla hvort dómurinn væri gildur eða ekki. Í morgun kvað yfirréttur í Bretlandi sem fyrr segir upp þann dóm að útivistardómur Jóns væri ógildur. Ranglega var því staðið að málarekstrinum í upphafi sem leiðir til þeirrar niðurstöðu sem nú er orðin. Af því leiðir að enginn grundvöllur er fyrir fjárnámsgerðinni á hendur Hannesi og væntir hann þess að hún verði felld niður,“ segir í tilkynningu frá Heimi.