Hvatt var til þess á Alþingi í morgun, að íslensk stjórnvöld leggi Palestínumönnum lið. Þuríður Backman, þingmaður VG, hóf máls á þessu í upphafi þingfundar og vísaði til þess, að hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna hefðu sent út neyðarkall og beðið þjóðir heims um jafnvirði 30 milljarða króna vegna matarskorts og fátæktar á heimastjórnarsvæðunum.
Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku undir orð Þuríðar og sögðu að það væri viðeigandi á síðasta fundi Alþingis fyrir jól að stjórnvöld veittu málstað Palestínumanna stuðning.