Lýðheilsustöð gagnrýnir, að í samkvæmt frumvarpi um lækkun virðisaukaskatts á matvælum verði virðisaukaskattur á gosdrykkjum og sykruðum svaladrykkjum lækkaður úr 24,5% í 7 og einnig falli vörugjald á þeim niður. Þessar vörur muni því lækka hlutfallslega mest allra matvara þegar lögin taka gildi.
Samtök verslunar og þjónustu lýstu hinsvegar, í umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, vonbrigðum yfir því að enn verði lögð vörugjöld á ákveðnar fæðutegundir, þ.e. sykur og sætindi.
Lýðheilsustöð sagði í bréfi til nefndarinnar, að neysla gosdrykkja sé gífurleg hér á landi og drekki unglingsstrákar mest af gosi og sykruðum svaladrykkjum, eða að meðaltali tæpan lítra á dag, og 55% af sykri í fæði þeirra kemur úr gosdrykkjum. Þótt unglingsstúlkur drekki minna sé neysla gosdrykkja of mikil hjá flestu ungu fólki. Mikið magn gosdrykkja og annarra sykraðra svaladrykkja hafi verið tengt við aukna tíðni ofþyngdar og offitu. Rannsóknir sýni að verðnæmi gosdrykkja sé töluverð og verðlækkun þeirra hafi mest áhrif á neyslu þeirra þjóðfélagshópa, sem almennt sé erfitt að ná til með heilsuhvetjandi skilaboðum. Í því samhengi megi nefna að unglingar séu mjög næmir fyrir verðbreytingum.